Fyrsti sigurvegarinn frá Japan

Hideki Matsuyama í græna jakkanum í kvöld.
Hideki Matsuyama í græna jakkanum í kvöld. AFP

Hideki Matsuyama frá Japan sigraði á Masters-mótinu í golfi sem lauk í Georgíuríki í Bandaríkjunum í kvöld og varð þar með fyrsti Japaninn til að vinna risamót í golfi hjá körlunum. 

Matsuyama var með forystuna fyrir lokadaginn og var þá á samtals ellefu undir pari Augusta National-vallarins. Hann lék á 73 höggum í dag og lauk því leik á samtals tíu undir pari. Lítt þekktur kylfingur, Will Zalatoris, var höggi á eftir en hann kom geysilega á óvart á mótinu. Zalatoris fær mikinn keppnisrétt fyrir að ná 2. sætinu á Masters, bæði á PGA-mótaröðinni og risamótunum, svo ekki sé minnst á um 150 milljónir króna í verðlaunafé. 

Lítil spenna var á lokahringnum því Matsuyama hafði um tíma fimm högga forskot. Hann var á tveimur undir pari eftir fyrri níu holurnar. Smá spenna hljóp þó í baráttuna um sigurinn. Bandaríkjamaðurinn Xander Schauffele var með Matsuyama í síðasta ráshópnum. Schauffele fékk tvöfaldan skolla á 4. braut og var um tíma þremur yfir í dag. En hann fékk fjóra fugla í röð á 12., 13., 14. og 15. holunni. Á 15. holunni sló Matsuyama í tjörnina fyrir aftan flötina og fékk skolla. Með þeirri tveggja högga sveiflu var munurinn tvö högg og þrjár holur eftir. En á 16. teig sló Schauffele í vatnið á þeirri frægu par 3 holu og þar með var draumurinn úti hjá honum. Schauffele lauk leik á sjö undir pari eins og Jordan Spieth og þeir urðu í 3. og 4. sæti. 

Spánverjinn Jon Rahm var fremur rólegur fyrstu þrjá dagana. Hann er nýbakaður faðir og því var ekki endilega búist við miklu af honum í mótinu að þessu sinni. Rahm sýndi takta í dag og lék á 66 höggum. Lauk hann leik á samtals sex undir pari eins og Ástralinn Marc Leishman. 

Ólympíumeistarinn Justin Rose lauk leik á fimm undir pari samtals en hann var á sjö undir pari eftir fyrstu þrjá keppnisdagana. Lék fyrsta hringinn á 65 höggum. 

Will Zalatoris kom geysilega á óvart.
Will Zalatoris kom geysilega á óvart. AFP
Xander Schauffele á hringnum í kvöld.
Xander Schauffele á hringnum í kvöld. AFP
Hideki Matsuyama þakkar stuðninginn á 18. flötinni í kvöld.
Hideki Matsuyama þakkar stuðninginn á 18. flötinni í kvöld. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert