Hæverska er hyggins háttur

Hideki Matsuyama skælbrosandi í græna jakkanum.
Hideki Matsuyama skælbrosandi í græna jakkanum. AFP

Þegar sólin var að búa sig undir að setjast í Georgíu í Bandaríkjunum undir kvöld á sunnudag var hún að koma upp á mánudagsmorgni í Japan. Hideki Matsuyama var þá að klæðast græna jakkanum á Augusta National-golfvellinum eftir að hafa unnið á Masters. Fyrsta risamóti ársins hjá körlunum í íþróttinni. Japanir vöknuðu því við þau tíðindi að Japani hefði unnið risamót í golfi hjá körlunum í fyrsta skipti. Japanskar konur höfðu áður afrekað slíkt og mun áhuginn á íþróttinni í Japan síst minnka við þessi úrslit.

Hideki Matsuyama hefur sjaldan sýnt mikil svipbrigði á golfvellinum. Hefur tileinkað sér varfærnislega framkomu eins og margir samlandar hans. Þegar Masters-meistarinn í fyrra, Dustin Johnson, hafði klætt Matsuyama í jakkann, leyfði Japaninn sér að lyfta höndunum og fagna. Matsuyama brosti breitt og ekki leyndi sér að þessi áfangi skipti hann miklu máli.

Hann var þó varkár þegar fjölmiðlamenn hófu að kasta á hann spurningum. Svaraði samviskusamlega með hjálp túlks en fór ekki á neitt flug í sigurvímunni. Hæverska er hyggins háttur segir máltækið. Spurður um hvort hann væri snjallasti kylfingur sem komið hefði frá Japan sagðist Matsuyama ekki geta svarað því. En hann væri sannarlega sá fyrsti til að vinna Masters og því hefði hann sett einhvers konar viðmið.

Lék á Masters fyrir áratug

Matsuyama er 29 ára gamall en hann fæddist í borginni Matsuyama í febrúar 1992. Fyrir sléttum áratug fékk hann tækifæri til að leika á Masters sem áhugamaður. Hafði þá orðið Asíumeistari áhugamanna og fékk boð á Masters en nokkrir áhugamenn leika á mótinu ár hvert. Matsuyama lék þá mjög vel. Var ekki einungis bestur áhugamannanna heldur hafnaði í 27. sæti á mótinu. Ljóst var að hann átti fullt erindi í mótaröð þeirra bestu ef hann myndi spila áfram vel úr sínum hæfileikum.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert