Haraldur fékk örn þegar á þurfti að halda

Haraldur Franklín Magnús.
Haraldur Franklín Magnús. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haraldur Franklín Magnús úr Golfklúbbi Reykjavíkur er á leið í gegnum niðurskurð keppenda á Emporda Chal­lenge mót­inu á Spáni á Áskor­enda­mótaröð Evr­ópu í golfi, þeirri næst­sterk­ustu í Evr­ópu. 

Haraldur lék á 71 höggi í dag eða á pari vallarins í Girona. Í gær lék hann á 68 og er því á þremur höggum undir pari. 

Guðmundur Ágúst Kristjánsson einnig úr GR er úr leik en hann lék báða hringina á 73 höggum. 

Útlit er fyrir að þeir sem verða á tveimur undir pari og betra skori eftir 36 holur komist áfram.

Haraldur var á einu höggi undir pari þegar hann átti aðeins eina holu eftir í dag. Var það par 4 holur og gerði Haraldur sér lítið fyrir og lék hana á tveimur höggum og fékk því örn. Þar með tryggði hann sér áframhaldandi keppnisrétt um helgina en leiknar verða 72 holur. Framúrskarandi kylfingar fá reglulega erni á par 5 holur en öllu sjaldgæfara er að slíkt gerist á par 4. 

Mikilvægt er fyrir Harald að leika vel en um næstsíðasta mótið er að ræða áður en kemur að lokamóti mótaraðarinnar. 45 efstu á stigalistanum á árinu komast á lokamótið og er Haraldur í 50. sæti listans. Hann þarf því ekki að hækka mikið á listanum en tækifærunum fer fækkandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert