Suðurnesjarok hjálpaði Axel í Svíþjóð

Axel Bóasson hefur þrívegis orðið Íslandsmeistari karla í golfi, síðast …
Axel Bóasson hefur þrívegis orðið Íslandsmeistari karla í golfi, síðast árið 2018. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Axel Bóasson, kylfingur úr Keili, stóð uppi sem sigurvegari Rewell Elisefarm-mótsins í Höör í Svíþjóð, sem er hluti af Nordic-mótaröðinni, fyrir tæpum tveimur vikum síðan. Skömmu áður hafði hann hafnað í 30. sæti á Barncancerfonden Open-mótinu í Laholm í Svíþjóð, sem var einnig hluti af mótaröðinni, eftir að hafa verið í efsta sæti að loknum öðrum hring þess.

„Það var kominn góður dynjandi í leik minn í mótinu á undan [í Laholm] fannst mér. Ég var byrjaður að spila nokkuð vel og kastaði þessu aðeins frá mér kannski líkt og í seinna mótinu nema í fyrra mótinu var enginn möguleiki fyrir mig að vinna það,“ sagði Axel í samtali við Morgunblaðið á kynningarfundi Golfsambands Íslands í síðustu viku.

Um sigurinn í Höör sagði hann: „Í seinna mótinu var í raun og veru svolítið hvasst, við fengum það sem ég kalla Suðurnesjarokið og ég kíkti aðeins á stöðuna eftir um 5-6 holur, aðeins til að sjá hvar ég væri staddur og þá voru bara allir að spila nokkuð illa.

Eða illa og ekki, aðstæður voru bara ekki nógu góðar og menn voru ekki að gera neitt af viti ef við getum orðað það þannig. Ég hélt bara mínu striki og það virkaði eins og par væri gott skor fyrir lokadaginn. Ég stefndi á það, var einu höggi frá því og það dugði.“

Ætlar að vinna sig aftur upp

Með því að standa sig vel í Nordic-mótaröðinni, sem er þriðja sterkasta atvinnumótaröðin í Evrópu, gefst kylfingum möguleiki á að vinna sig upp í Áskorendamótaröðina, næststerkustu atvinnumótaröð Evrópu, og hefur Nordic-mótaröðin einmitt reynst íslenskum kylfingum góður stökkpallur undanfarin ár.

Axel kvaðst bjartsýnn á að vinna sig aftur upp í Áskorendamótaröðina, en til þess að gera það þarf hann annaðhvort að vera í einu af efstu fimm sætunum að mótaröðinni lokinni eða vinna þrjú mót á henni. „Já ég er búinn að gera það einu sinni. Samkeppnin á öllum mótaröðum í dag er bara að verða harðari og harðari, það eru allir ógeðslega góðir. Fjöldinn er orðinn meiri alls staðar á öllum túrum.

Það er kannski ekki eins sjálfgefið eins og í gamla daga að vinna sig upp, ef svo mætti segja, en það þarf alltaf gott og stöðugt golf. Fyrir mína parta þá þarf ég að vinna í mínum þáttum og þá mun það líklega skila nokkrum svona sigrum. Við erum auðvitað að stefna á að vera í topp fimm eða einfaldlega þessa þrjá sigra.“

Viðtalið við Axel má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert