Ólafía Þórunn hætt í golfi

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. mbl.is/Óttar Geirsson

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur ákveðið að hætta keppni í golfi.

Þetta tilkynnti hún á samfélagsmiðlum í dag en hún hefur verið einn fremsti kylfingur landsins undanfarinn áratug.

Hún eignaðist sitt fyrsta barn á síðasta ári, soninn Maron Atlas, en snéri aftur á golfvellinn á þessu ári eftir 20 mánaða fjarveru.

„Nú er komið að tímamótum í mínu lífi,“ sagði Ólafía Þórunn í færslu sem hún birti á Youtube.

„Ég hef ákveðið að einblína á önnur áhugasvið Ólafíu sem snúast meðal annars um það að eyða tíma með fjölskyldu minni og Maroni.

Golf hefur alltaf verið stór hluti af mínu lífi og fyrir það er ég ótrúlega þakklát,“ sagði Ólafía Þórunn meðal annars.

Ólafía Þórunn hefur verið atvinnumaður í íþróttinni frá árinu 2014 en hún var kjörin íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna árið 2017 eftir að hafa tryggt sér þátttökurétt á LPGA-mótaröðinni, þeirri sterkustu í heimi.

Hún er eini íslenski kylfingurinn sem hefur tekið þátt í öllum fimm risamótunum í kvennagolfinu en alls tók hún þátt á sjö risamótum á ferlinum og 26 mótum á vegum LPGA-mótaraðarinnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert