Hildur til Koblenz í sumar

Hildur Þorgeirsdóttir t.v. sækir að vörn sænska landsliðsins í kappleik. …
Hildur Þorgeirsdóttir t.v. sækir að vörn sænska landsliðsins í kappleik. Hildur ætlar að framlengja dvöl sína í Þýskalandi og hefur skrifað undir tveggja ára samning við Koblenz. Ómar Óskarsson

Landsliðskonan í handknattleik, Hildur Þorgeirsdóttir, hefur skrifað undir tveggja ára samning við þýska A-deildarliðið Koblenz, samkvæmt heimildum mbl.is. Hildur gengur til liðs við félagið 1. júlí þegar núverandi tveggja ára samningur hennar við A-deildarliðið Blomberg-Lippe rennur út.

Hildur mun hafa tilkynnt forráðamönnum Blomberg-Lippe um ákvörðun sína í dag en þeir hafa ítrekað óskað eftir að hún endurskoði hug sinn til félagsins, en Hildur afþakkaði nýjan samning við Blomberg skömmu fyrir áramót.

Koblenz hafnaði í níunda sæti þýsku A-deildarinnar á nýliðnu keppnistímabili, aðeins þremur stigum á eftir Blomberg sem var síðasta liðið sem tryggði sér sæti í úrslitakeppninni. Mikill hugur er í forráðamönnum Koblenz að gera enn betur á næsta keppnistímabili.

Hildur, sem er örvhent skytta og góður varnarmaður, var m.a. í íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í Serbíu í byrjun desember. Áður en hún fór til Þýskalands lék hún með Fram og FH hér heima en rætur hennar liggja hjá FH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert