Aron er með tilboð frá Kiel

Aron Pálmarsson reynir markskot.
Aron Pálmarsson reynir markskot. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Ég get staðfest að Kiel hefur boðið mér nýjan samning en ég hef líka fengið fyrirspurnir frá fleiri félögum. Það liggur samningur á borðinu frá Kiel og það er eini samningurinn sem ég er búinn að líta yfir. En eins og staðan er í dag þá vil ég helst ekki vera að einbeita mér að þessum hlutum. Aðalmálið núna er að ná mér góðum í hnénu,“ sagði landsliðsmaðurinn Aron Pálmarsson, leikmaður Þýslands- og Evrópumeistara Kiel, við Morgunblaðið í gær.

Það er engum blöðum um það að fletta að þrátt fyrir ungan aldur er Aron kominn í hóp bestu handboltamanna í heimi og það er ekkert skrýtið að bestu félög í heimi hafi augastað á honum.

Stefan Kretzschmar, fyrrverandi landsliðsmaður Þjóðverja í handknattleik og einn af handboltaspekingum þýsku sjónvarpsstöðvarinnar Sport1, sagði í vikunni að hann Kiel hefði ekki efni á því að halda Aroni í sínum röðum en þýska meistaraliðið skilaði uppgjöri fyrir árið 2013 á dögunum og var niðurstaðan sú að tap var á rekstri félagsins sem nemur 450 þúsund evrum en sú upphæð nemur 70 milljónum íslenskra króna.

Sjá allt viðtalið við Aron í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert