Bjarni rifbeinsbrotinn

Bjarni Fritzson í leik með ÍR-ingum.
Bjarni Fritzson í leik með ÍR-ingum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Fritzson spilandi þjálfari ÍR í handknattleik er rifbeinsbrotinn og spilar ekki meira með liði sínu á þessu ári.

Bjarni fékk þungt högg á síðuna í leiknum gegn FH í fyrri hálfleik þegar liðin áttust við í Olís-deildinni í Seljaskóla á fimmtudagskvöldið eftir ljótt brot Andra Hrafns Hallsonar. Bjarni fór af leikvelli og kom ekkert meira við sögu í leiknum. Hann leitaði ekki til læknis fyrr en í gær og eftir myndatöku kom í ljós að hann var rifbeinsbrotinn.

„Ég hef ekki lent í svona meiðslum áður svo ég get ekki sagt til um það hversu lengi ég verð frá keppni. Það er hins vegar alveg ljóst að ég spila ekki næstu vikurnar og ég mun því einbeita mér alfarið að þjálfuninni. Það er gott að geta hjálpað til á fleiri vígstöðvum. Ég er búinn að vera mjög kvalinn í síðunni frá því þetta gerðist en ég fór ekki á slysadeildina fyrr en í gær.

Mig grunaði að ég væri rifbeinsbrotinn en ég vissi svo sem að það væri ekkert hægt að gera. Í ljósi þess að það hefur verið verkfall hjá læknum og ástandið ekki á Landspítalanum þá beið ég með að fara að láta líta á þetta en ég þurfti að fá staðfestingu á því að ég væri brotinn,“ sagði Bjarni við mbl.is.

Bjarni segir að brot Andra Hrafns hafi verið alveg glórulaust. „Þetta var ljótt brot og ég vildi að við værum með í handboltanum að hægt væri að skoða myndbandsupptökur og dæma menn í leikbann eftir á. Við viljum ekki sjá svona brot í okkar íþrótt,“ sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert