Andrúmsloftið er svolítið skrýtið

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Ljósmynd/Veszprém

Landsliðsmaðurinn Aron Pálmarsson yfirgaf sem kunnugt er þýska meistaraliðið Kiel í sumar og gekk til liðs við ungversku meistarana í Veszprém. Eftir sex frábær ár hjá Kiel, þar sem hann varð fjórum sinnum þýskur meistari, tvisvar bikarmeistari, vann Meistaradeildina í tvígang auk þess að vinna fleiri titla, ákvað Aron að söðla um og upplifa ný ævintýri á ferli sínum.

Aron er hægt og bítandi að koma sér inn í hlutina hjá Vezsprém og í nýju landi en það dró heldur betur til tíðinda í herbúðum félagsins í vikunni þegar spænska þjálfaranum Antonio Carlos Ortega var óvænt sagt upp störfum. Aðstoðarmaður hans, Xavi Sabate, mun stýra liðinu tímabundið þar til félagið ræður nýjan þjálfara.

Kom eins og köld vatnsgusa

„Það er óhætt að segja að það sé hasar í gangi hjá liðinu. Þessi brottrekstur kom eins og köld vatngusa framan í okkur og maður er svona enn að átta sig á þessu. Við bjuggumst ekki við svona hörðum aðgerðum. Við mættum á æfingu klukkan tíu á mánudagsmorguninn og þar tjáðu eigendurnir að það væri búið að reka þjálfarann,“ sagði Aron Pálmarsson við Morgunblaðið.

Forráðamenn Veszprém ákváðu að segja Ortega upp í kjölfar jafnteflis liðsins gegn Wisla Plock í Meistaradeildinni. Þeir voru ekki ánægðir með þau úrslit og eins þegar liðið tapaði fyrir Füchse Berlin í úrslitaleik á heimsmeistaramóti félagsliða sem fram fór í Katar fyrr í þessum mánuði.

Skrýtið andrúmsloft

„Nú er unnið að því dag og nótt að finna nýjan þjálfara. Ég er búinn að heyra nöfn eins og Slavko Goluza, Lino Cervar og Martin Schwalb en hver það verður sem tekur við er ómögulegt að segja. Svona staða er algjörlega ný fyrir mig. Það kom aldrei til greina að reka Alfreð á þeim sex árum sem ég spilaði með Kiel. Það er svolítið skrýtið andrúmsloft hjá klúbbnum núna en við erum atvinnumenn og látum þetta ekkert slá okkur út af laginu. Þetta var þó ekki besta tímasetningin þar sem við tökum á móti Flensburg í Meistaradeildinni um næstu helgi,“ sagði Aron.

Aðstæður hinar bestu

En hvernig eru fyrstu kynni þín af liðið Veszprém og Ungverjalandi?

„Þetta er náttúrlega allt annað en Þýskaland. Hér er allt miklu rólegra og afslappaðra. Það er kannski ekki allt eftir bókinni en hingað til hefur mér liðið vel og er ánægður. Ég bý vel. Ég er í húsi á mjög skemmtilegum stað við Balatonvatnið þannig að aðstæður fyrir mig eru allar hinar bestu, bæði heima fyrir og hvað varðar liðið. Við æfum alltaf í höllinni þar sem við spilum og þar er lyftingasalur og allt til alls. Fyrstu kynnin af landi og þjóð og af liði hafa bara verið afar góð og eins og við var að búast. Hér tala flestallir þýsku sem er mjög jákvætt og ég er bara ánægður hérna. Það er ekkert stress á hlutunum og ef það vantar að kippa einhverju í liðinn eru þau mál bara leyst eftir eitt til tvö símtöl,“ segir Aron Pálmarsson.

Aron segir að það hafi verið vonbrigði að vinna ekki heimsmeistaramót félagsliða í Katar.

„Það voru auðvitað vonbrigði. Þegar maður horfir yfir hópinn hjá okkur þá finnst mér að við eigum ekki að tapa einum leik,“ segir Aron en með honum í liði Vezprém eru leikmenn á borð við ungversku stórskyttuna Lazslo Nagý, Serbann Momir Ilic, markvörðinn Mirko Alilovic, spænska hornamanninn Christian Ugalde, spænska leikstjórnandann Chema Rodríguez, línumanninn Renato Sulic og Þjóðverjann Christian Zeitz svo einhverjir séu nefndir.

Eigum að fara alla leið

„Það eru þvílík gæði í þessu liði og alveg klár markmiðin hjá okkur; að vinna alla titla sem í boði eru,“ segir Aron en auk þess að spila í Meistaradeildinni spilar Veszprém í ungversku deildinni þar sem liðið kemur inn í deildina á síðari stigum hennar sem meistarar. Þá spilar liðið í SEHA-deildinni, en í henni spila tíu lið frá Balkanlöndunum.

„Við erum alveg búnir að fá að heyra það að við eigum að fara alla leið í Meistaradeildinni í ár. Það er talað um að þetta sé besta Veszprém-lið allra tíma og hópurinn sem liðið hafi úr að spila sé rosalega sterkur. Ég er stoltur af að vera í þessu liði og við eigum með þetta lið að ná frábærum árangri. Mig langaði að prófa eitthvað annað og að vera Íslendingur hér í Ungverjalandi er eitthvað nýtt. Mér hefur verið tekið mjög vel og allir eru jákvæðir í minn garð. Nú þarf maður bara að sýna góða hluti inni á vellinum. Það er númer eitt, tvö og þrjú.“

Þarf að vera samviskusamur

Finnurðu mikinn mun á álagi hjá Veszprém og Kiel?

„Við æfum nú kannski ekkert minna en ég gerði með Kiel. Maður þarf að vera samviskusamur og æfa sjálfur mikið og það hef ég gert. Hjá Ortega gengu æfingarnar mikið út á að standa úti á velli og spjalla. Þetta er því ekkert eins og hlaupin hjá Alla. Ég hef haldið góðu sambandi við nokkra félaga mína hjá Kiel og auðvitað saknar maður ákveðinna hluta. Þegar ég horfði á Kiel spila í Flensburg um daginn viðurkenni ég alveg að ég hefði verið til í að vera þar. En þetta var mín ákvörðun og ég vissi hvað ég var að fara út í og hverju ég var að hlaupa frá. Ég hef ekki fundið fyrir neinni eftirsjá enn sem komið er en nú er smá óvissa hjá félaginu varðandi þessi þjálfaramál. Eðlilega er maður pínulítið stressaður yfir því hver verður ráðinn en á meðan verður maður bara að vera duglegur að æfa og vona að málin leysist vel.“

Aron í leik með Veszprém.
Aron í leik með Veszprém. Ljósmynd/Veszpém
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Ljósmynd/Veszprém
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert