Blendnar tilfinningar hjá Steinunni

Steinunn Björnsdóttir, leikmaður Fram, sneri aftur inn á handboltavöllinn eftir …
Steinunn Björnsdóttir, leikmaður Fram, sneri aftur inn á handboltavöllinn eftir að hafa eignast barn um miðjan desember síðastliðinn. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Það eru gríðarleg vonbrigði að ná ekki að landa sigrinum eftir að hafa verið átta mörkum yfir þegar seinni hálfleikur var rúmlega hálfnaður. Við hættum að spila almennilega vörn og urðum kærulausar í sóknarleiknum. Því fór sem fór,“ sagði Steinunn Björnsdóttir, leikmaður Fram, í samtali við mbl.is, eftir 24:23-tap liðsins gegn Haukum í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld.

Steinunn lék sinn fyrsta leik fyrir Fram á yfirstandandi leiktíð, en hún eignaðist barn um miðjan desember síðastliðinn. Steinunn sagði tilfinninguna góða að vera komin inn á völlinn á nýjan leik, en svekkelsið yfir tapinu var henni augljóslega efst í huga. 

„Meðgangan gekk vel og það er vissulega góð tilfinning að vera komin í handboltaskóna og í baráttuna aftur. Ég spilaði bara vörnina í kvöld og ég fann ekkert fyrir því að ég væri búin að vera lengi frá eða að barnsburðurinn hefði áhrif. Ég er hins vegar fyrst og fremst að velta því fyrir mér akkúrat núna hvernig okkur tókst að kasta frá okkur sigrinum að þessu sinni,“ sagði Steinunn svekkt.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert