Ánægður með karakterinn í liðinu

Örn Þrastarson, þjálfari Selfoss, á hliðarlínunni í leik liðsins gegn …
Örn Þrastarson, þjálfari Selfoss, á hliðarlínunni í leik liðsins gegn Fram. mbl.is/ Haraldur Jónasson / Hari

„Þetta var nokkuð þungur róður og við vorum í basli í fyrri hálfleik. Ég er hins vegar afar ánægður með að stelpurnar hengdu ekki haus og héldu áfram í seinni hálfleik. Vörnin okkar þéttist eftir því sem leið á leikinn og við byggjum á því í framhaldinu,“ sagði Örn Þrastarson, þjálfari Selfoss, eftir tíu marka tap liðsins gegn Fram í 15. umferð Olísdeildar kvenna í handbolta í Safamýri í kvöld.

„Við lékum án lykilleikmanna okkar í þessum leik og það er vonandi að þær fari að snúa inn á völlinn á næstunni. Ungir leikmenn okkar stóðu sig hins vegar vel og þessi leikur fer klárlega í reynslubankann hjá þeim. Þær munu taka eitthvað jákvætt úr þessu og nýta sér það í komandi leikjum. Þrátt fyrir stórt tap er heilmargt sem við getum tekið með okkur í komandi verkefni,“ sagði Örn enn fremur í samtali við mbl.is eftir leikinn.  

Selfoss lék án Hrafnhildar Hönnu Þrastardóttur, Kristrúnar Steinþórsdóttur og Perlu Ruthar Albertsdóttur í þessum leik og munar það svo sannarlega um minna fyrir liðið. Örn sagði að óvíst væri hvenær þær gætu farið að spila á nýjan leik, en það væru um það bil helmingslíkur á því að þær yrðu með í næsta leik Selfoss sem er á móti Val.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert