Guðmundur fetar í fótspor Birgis

Guðmundur Þórður Guðmundsson tekur við þjálfun íslenska landsliðsins í handknattleik …
Guðmundur Þórður Guðmundsson tekur við þjálfun íslenska landsliðsins í handknattleik karla í þriðja sinn á ferlinum í dag. mbl.is/Golli

Guðmundur Þórður Guðmundsson fetar í dag í fótspor Hafnfirðingsins Birgis Björnssonar þegar hann tekur við þjálfun íslenska landsliðsins í handknattleik karla í þriðja sinn.

Þeir eru einu þjálfarar karlalandsliðsins sem hafa tekið við starfinu í þrígang en nokkrir hafa verið ráðnir tvisvar með nokkurra ára millibili.

Guðmundur Þórður, sem samkvæmt heimildum mbl.is verður kynntur til leiks sem landsliðsþjálfari karla í handknattleik á blaðamannafundi klukkan 16.15 í dag, var fyrst ráðinn vorið 2001 eftir að hafa hætt nokkru áður hjá þýska liðinu Bayer Dormagen. Hann lét af störfum sumarið 2004 en tók upp þráðinn á ný með landsliðinu í mars 2008 og stýrði landsliðinu í fjögur ár eða fram yfir Ólympíuleikana í London sumarið 2012.  Í millitíðinni var Guðmundur Þórður aðstoðarþjálfari Alfreðs Gíslasonar frá vorinu 2006 fram yfir HM í Þýskalandi í janúar 2007.

Birgir Björnsson var landsliðsþjálfari á þremur tímabilum á ferli sínum. Fyrst á árunum 1967 til 1968, aftur frá 1974 til 1975 og loks frá 1977 til 1978, fram yfir HM sem fram fór í Danmörku snemma árs.

Fram til þess er Birgir Björnsson sá eini sem hefur …
Fram til þess er Birgir Björnsson sá eini sem hefur tekið við þjálfun íslenska landsliðsins í þrígang. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Birgir og Guðmundur eiga það einnig sameiginlegt að hafa leikið stór hlutverk með íslenska landsliðinu áður en þeir sneru sér að þjálfun.

Nokkrir þjálfarar hafa verið ráðnir í tvígang. Fyrstur þeirra var Hallsteinn Hinriksson frá 1958 til 1959 og aftur frá 1961 til 1964, Karl G. Benediktsson frá 1964 til 1967 og á ný frá 1972 til 1974, Hilmar Björnsson 1968 til 1972 og aftur 1980 til 1983.

Sautján karlar hafa þjálfað íslenska karlalandsliðið í handknattleik. Sá fyrsti var Sigurður Magnússon. Hann stýrði landsliðinu í fyrstu leikjum þess árið 1950, sjö árum áður en Handknattleikssambandi Íslands var komið á laggirnar. Síðan liðu átta ár þar til Hallsteinn Hinriksson var ráðinn 1958. Hann var fyrsti landsliðsþjálfarinn eftir að sambandið var stofnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert