Góð ferð Eyjamanna í alla staði

Agnar Smári Jónsson og strákarnir hans í ÍBV fóru áfram …
Agnar Smári Jónsson og strákarnir hans í ÍBV fóru áfram í Áskorenda keppni Evrópu. mbl.is/Sigfús Gunnar Guðmundsson

„Þetta var góð ferð í alla staði,“ sagði sigurreifur Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, eftir að hans menn tryggðu sér sæti í 8-liða úrslitum Áskorendakeppninnar í Evrópu í handknattleik með því að leggja ísraelska liðið Ramhat að velli, samanlagt 53:46.

Eyjamenn unnu frækinn sjö marka sigur á heimavelli í fyrri leiknum og gerðu svo 21:21 jafntefli í Ísrael á laugardaginn var. „Það var tekið gífurlega vel á móti okkur, höllin var góð og allt var til fyrirmyndar,“ bætti hann við og sagði að gæði andstæðinganna hefðu komið sér eilítið á óvart en hann hrósaði sínum mönnum í hástert og sagði það ekki hafa verið vandamál að mæta til leiks með sjö marka forystu frá fyrri leiknum.

„Menn vita að það geta verið miklar sveiflur í þessum Evrópukeppnum, við þurftum að byrja af fullum krafti og gerðum það. Þeir eru sterkir og spila hörkuvörn og eftir góða byrjun hjá okkur var leikurinn í járnum til enda, sem betur fer tókum við gott forskot með okkur út.“

Þau hafa mörg verið kostuleg, ævintýri íslenskra handknattleiksliða í Evrópukeppnum á undanförnum misserum. Það er mörgum enn í fersku minni hvernig Valsarar voru hreinlega flautaðir úr keppninni í fyrra eftir vafasama dómgæslu og sömuleiðis mæddi mikið á FH-ingum í vetur er þeir urðu að gera sér aukaferð til Rússlands og spila vítakeppni í EHF-bikarnum eftir mistök eftirlitsdómara. Arnar segir Eyjamenn, sem betur fer, ekki hafa rekið sig á þetta enn þá. „Dómgæslan var til fyrirmyndar og við höfum ekki rekið okkur á þetta og gerum það vonandi ekki. Það var ekki handboltanum til framdráttar, það sem gerðist í fyrra,“ sagði hann og bætti við að íslensk lið ættu aldrei að skorast undan því að taka þátt á þessu sviði.

Sjá allt viðtalið við Arnar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert