Guðjón Valur ekki í landsliði Guðmundar

Guðjón Valur Sigurðsson er óvænt ekki í íslenska landsliðinu í …
Guðjón Valur Sigurðsson er óvænt ekki í íslenska landsliðinu í handknattleik sem var valið í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Guðjón Valur Sigurðsson er ekki  einn þeirra 20 leikmanna sem Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, valdi í sinn fyrsta landsliðshóp og tilkynntur var á blaðamannafundi sem stendur ný yfir. Fjórir nýliðar eru í hópnum, Alexander Örn Júlíusson úr Val, Selfyssingurinn Haukur Þrastarson, markvörðurinn ungi úr Fram, Viktor Gísli Hallgrímsson og Selfyssingurinn Ragnar Jóhannsson sem leikur með þýska 1. deildarliðinu Hüttenberg.

Guðjón Valur fær frí af fjölskylduástæðum en hann er á leið til Bandaríkjanna með dóttur sína þar sem þau skoða háskóla.

Valsmaðurinn Alexander Örn Júlíusson er í fyrsta sinn valinn í …
Valsmaðurinn Alexander Örn Júlíusson er í fyrsta sinn valinn í A-landslið karla. mbl.is/Eggert

Stefán Rafn Sigurmannsson, Ólafur Gústafsson, Ólafur Bjarki Ragnarsson,  Ragnar Jóhannsson og Vignir Svavarsson eru í landsliðshópnum að þessu sinni en þeir hafa ekki verið í hópnum um nokkurt skeið.

Af þeim leikmönnum sem tóku þátt í EM í Króatíu eru  Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður,  Ásgeir Örn Hallgrímsson, Arnór Atlason, Kári Kristján Kristjánsson, Bjarki Már Gunnarsson og Janus Daði Smárason auk Guðjón Vals ekki í landsliðshópnum að þessu sinni. Janus Daði og Ásgeir Örn glíma við meiðsli og eru ekki í hópnum af þeim ástæðum.

Haukur Þrastarson, hinn 16 ára gamli Selfyssingur, er í A-landsliðinu …
Haukur Þrastarson, hinn 16 ára gamli Selfyssingur, er í A-landsliðinu í fyrsta skipti. mbl.is/Eggerty

Guðjón Valur hefur leikið með íslenska landsliðinu frá árinu 1999 og á að baki 346 landsleiki sem hann hefur skoraði í 1.812 mörk sem er heimsmet. Hann hefur verið fyrirliði íslenska landsliðsins um árabil. Ekki er ljóst hvort Guðjón Valur hafi leikið sinn síðasta landsleik eða ekki þótt hann sé ekki í landsliðshópnum að þessu sinni.

Viktor Gísli Hallgrímsson, hinn efnilegi markvörður úr Fram, er í …
Viktor Gísli Hallgrímsson, hinn efnilegi markvörður úr Fram, er í A-landsliðinu í fyrsta sinn. mbl.is/Hari

Framundan hjá íslenska landsliðinu er þátttaka í fjögurra liða móti í Noregi  5. – 9.apríl þar sem leikið veriður gegn landsliðum Noregs, Danmerkur og Frakklands.  Af þeim 20 leikmönnum sem Guðmundur Þórður valdi í hópinn og til æfinga fyrir mótið í Noregi reiknar hann með að velja 18 leikmenn til þátttöku í mótinu.

Hópurinn er skipaður eftirtöldum leikmönnum:

Markverðir:
Björgvin Páll Gústavsson, Haukum
Aron Rafn Eðvarðsson, ÍBV
Viktor Gísli Hallgrímsson, Fram

Vinstra horn:
Bjarki Már Elísson, Füchse Berlin
Stefán Rafn Sigurmannsson, Pick Szeged

Vinstri skyttur:
Aron Pálmarsson, Barcelona
Ólafur Andrés Guðmundsson, Kristianstad
Ólafur Gústafsson, KIF Kolding

Miðjumenn:
Gísli Þorgeir Kristjánsson, FH
Ólafur Bjarki Ragnarsson, West Wien
Haukur Þrastarson, Selfossi

Hægri skyttur:
Ómar Ingi Magnússon, Aarhus Håndbold
Rúnar Kárason, Hannover-Burgdorf
Ragnar Jóhannsson, Hüttenberg

Hægra horn:
Theodór Sigurbjörnsson, ÍBV
Arnór Þór Gunnarsson, Bergischer HC

Línumenn:
Vignir Svavarsson, Team Tvis Holstebro
Arnar Freyr Arnarsson, Kristianstad
Ýmir Örn Gíslason, Val

Varnarmaður:
Alexander Örn Júlíusson, Val

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert