Selfoss í undanúrslit eftir sigur í Garðabæ

Ari Magnús Þorgeirsson er hér að skora fyrir Stjörnuna í …
Ari Magnús Þorgeirsson er hér að skora fyrir Stjörnuna í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Selfoss er komið í undanúrslit Íslandsmóts karla í handknattleik eftir sigur á Stjörnunni í öðrum leik liðanna 30:28 í átta liða úrslitum í Garðabænum í kvöld. Selfoss hafði betur 2:0 samanlagt og Stjarnan er úr leik. 

Selfyssingum tókst að snúa leiknum sér í hag í síðari hálfleik en Stjarnan hafði yfir 16:13 að loknum fyrri hálfleik. Stjarnan byrjaði mun betur og komst í 5:1 en Selfyssingar hresstust þegar á leið fyrri hálfleik. 

Eftir tæpar tíu mínútur í síðari hálfleik hafði Selfoss jafnað 18:18. Eftir það var leikurinn mjög jafn ef frá eru taldar síðustu tvær mínúturnar eða svo þegar sigur Selfyssinga var orðinn mjög líklega niðurstaða. 

Segja má að leiðinlegur ávani hafi tekið sig upp hjá Stjörnunni því á árum áður var liðið þekkt fyrir að falla úr keppni í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins. Virtist þá engu skipta hversu vel liðið var mannað. 

Leikurinn var nokkuð harður eins og úrslitakeppnin hefur verið en menn héldu sig þó innan velsæmismarka. Stjarnan varð fyrir blóðtöku þegar sterkasti varnarmaður liðsins, Bjarki Már Gunnarsson, fékk beint rautt við að stjaka við Elvari Erni Jónssyni sem kominn var í gegnum vörnina og lenti illa. Úr varð nokkur hamagangur í framhaldinu og einn leikmaður úr hvoru liði nældi sér í tveggja mínútna brottvísun. 

Leó Snær Pétursson og Egill Magnússon skoruðu 7 mörk hvor fyrir Stjörnuna en Egill hefði þurft að ógna meira í seinni hálfleik. Aron Dagur Pálsson var mjög góður og skoraði 6 mörk og Sveinbjörn Pétursson varði 15/1 skot í markinu. Hergeir Grímsson átti stórleik og skoraði 10 mörk fyrir Selfoss og Teitur Örn Einarsson var með 6 mörk. Helgi Hlynsson varði 15 skot í markinu. 

Stjarnan 28:30 Selfoss opna loka
60. mín. Stjarnan tekur leikhlé Tæp mínúta eftir. Einungis kraftaverk getur forðað Garðbæingum frá því að fara í sumarfrí.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert