Framarar jöfnuðu metin

Karen Knútsdóttir, Fram, í baráttunni í Framhöllinni í dag.
Karen Knútsdóttir, Fram, í baráttunni í Framhöllinni í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram jafnaði metin í rimmu sinni við Val með sigri, 28:22, á heimavelli í dag í öðru leik liðanna í úrslitum Íslandsmóts kvenna í handknattleik. Heimaliðið var marki yfir í hálfleik, 13:12, og var sterkari aðilinn allan síðari hálfleikinn þótt Valur væri aldrei langt undan.

Munurinn, sex mörk, þegar upp er staðið gefur ekki rétta mynd af jöfnum og bráðskemmtilegum leik liðanna að þessu sinni.

Næsta viðureign liðanna fer fram í Valshöllinni á mánudagskvöldið og verður flautað til leiks klukkan 19.30.

Valur byrjaði leikinn betur og komst í 3:1. Framarar jöfnuðu metin og eftir það má segja að viðureignin hafi verið í járnum fram að hálfleik að því undanskildu að Fram náði einu sinni tveggja marka forskoti, 9:7.  Leikurinn var hraður í fyrri hálfleik, hraðari en leikmenn réðu oft við. Fyrir vikið var talsvert um mistök á báða bóga.

Annar bragur var á Fram-liðinu í fyrri hálfleik en í fyrsta leiknum á þriðjudagskvöldið þar sem Valsliðið réði lögum og lofum. Valsmenn gáfu þó ekkert eftir. Leikurinn var vel upp settur af hálfu liðsins og það gaf ekki þumling eftir.

Fram hóf síðari hálfleik var miklum krafti og virtist ætla að taka öll völd á leikvellinum. Liðið náði fljótlega þriggja marka forskoti, 17:14, og aftur 19:16, þegar rétt rúmar tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Valsliðið var ekki af baki dottið. Þjóðverjinn Chantel Pagel kom í markið í stað Linu Rypdal. Hún varði nokkur skot og hélt Valsliðinu inn í leiknum en hinsvegar var leikmönnum liðsins mislagðar hendur í sókninni hvað eftir annað. Fram var þar af leiðandi með tveggja marka forskot, 20:18, þegar fyrri hálfleik var hálfnaður.

Valur jafnaði metin, 21:21, þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Framarar náðu að sig framúr á nýjan leik en forskotið var aldrei nema eitt til tvö mörk.  Leikurinn var í járnum þar til þrjár mínútur voru eftir. Lokakaflinn var Fram-liðsins sem vann með sex marka mun.

Karen Knútsdóttir átti stórleik fyrir Fram að þessu sinni, jafnt í vörn sem sókn. Fleiri leikmenn Framara voru sjálfum sér líkari en þeir voru í fyrstu viðureign liðanna. M.a. var markvarslan betri en áður.

Valsliðið barðist til loka og hefði með nákvæmni og örlítilli heppni getað náð meira úr leiknum en raun varð á.

Fram 28:22 Valur opna loka
60. mín. Elísabet Gunnarsdóttir (Fram) skoraði mark - eftir sendingu Ragnheiðar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert