Spennustigið var ekki rétt

Hildur Þorgeirsdóttir, Fram, og Kristín Guðmundsdóttir, Val, eigast við.
Hildur Þorgeirsdóttir, Fram, og Kristín Guðmundsdóttir, Val, eigast við. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Spennustigið var ekki rétt hjá okkur. Því miður þá tekst ekki alltaf að hafa það rétt stillt og fyrir vikið vorum við ekki tilbúnar í leikinn,“ sagði Sigurlaug Rúnarsdóttir, aðstoðarþjálfari Vals, eftir tap liðsins, 29:25, fyrir Fram í þriðja úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna í Valshöllinni í kvöld.

„Framliðið er sterkt og þegar það kemst í að leika eins og það fékk að gera lengst af í kvöld þá er það illviðráðanlegt. Okkar markmið var að koma í veg fyrir að þær fengju að leika eins og þeim líkar best en því miður. Þess vegna fór sem fór. Eftir að Fram náði fimm til sex marka forskoti snemma leiks þá var það sem eftir var á brattann að sækja af okkar hálfu. Við eltum þær allan leikinn,“ sagði Sigurlaug og bætti við að Valsliðið hefði alls ekki leikið eins og því var uppálagt.

„Við brutum okkur út úr leikaðferðum og hleyptum Framliðinu fyrir vikið meðal annars í hraðaupphlaupin sín.  Framarar refsa grimmt fyrir öll mistök,“ sagði Sigurlaug.

Spurð hvort hún hefði áhyggur af að leikmenn Vals tækju vonbrigðin frá leiknum í kvöld með sér inn í fjórða leikinn á fimmtudaginn sagðist Sigurlaug óttast leikinn en það breytti ekki þeirri staðreynd að það verði að vinna þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari. „Það eru tveir leikir eftir í rimmunni og við förum ískaldar inn í leikinn á fimmtudaginn. Við verðum betur stemmdar á fimmtudaginn og munum leggja okkur allar fram um að ná oddaleik. Til þess verðum við að leika mikið betur en í kvöld, það alveg klárt mál,“ sagði Sigurlaug Rúnarsdóttir, aðstoðarþjálfari kvennaliðs Vals í handknattleik, í samtali við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert