Framarar komnir í forystusætið

Ragnheiður Júlíusdóttir úr Fram leitar leiða fram hjá Díönu Dögg …
Ragnheiður Júlíusdóttir úr Fram leitar leiða fram hjá Díönu Dögg Magnúsdóttur í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Fram tók forystu í kapphlaupinu við Val um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna með sannfærandi sigri, 29:25, í Valshöllinni í kvöld í þriðju viðureign liðanna. Fram hefur þar með tvo vinninga en Valur einn og getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð á heimavelli á fimmtudagskvöldið.

Fram var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. Staðan í hálfleik var 16:10, Safamýrarliðinu í vil.

Allt annað var að sjá til liðs Fram í upphafi leiksins en í fyrsta leik liðanna í Valshöllinni fyrir sex dögum. Leikmenn voru sjálfstraustið uppmálað, vörnin var frábær og Guðrún Ósk Maríasdóttir með á nótunum í markinu. Enda fór það svo að snemma varð ljóst að spennan yrði takmörkuð, að minnsta kosti í fyrri hálfleik. Fram skoraði hvert markið á fætur öðru eftir hröð upphlaup, ýmist eftir liðið hafði hirt boltann af daufum leikmönnum Vals, eða þá eftir að Valsliðið hafði gloprað boltanum frá sér á annan og einfaldan hátt.

Eftir liðlega stundarfjórðungsleik var staðan 9:3, Fram í vil. Þá hafði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, þegar tekið leikhlé í tvígang til þess að freista þess að hressa upp á sína menn. Það var ekki fyrr en Stefán Arnarson, þjálfari Fram, tók leikhlé eftir nærri 20 mínútna leik að Valsliðið hresstist örlítið og klóraði í bakkann um stund. Adam var ekki lengi í Paradís. Fram-liðið beit frá sér á ný og var með sex marka forskot í hálfleik, 16:10.

Þótt leikur Vals skánaði til muna í síðari hálfleik nægði það ekki til þess að leikurinn yrði á einhverjum tímapunkti spennandi.  Smá von vaknaði sex mínútum fyrir leikslok þegar munurinn var orðinn þrjú mörk, 26:23, og Valur gat minnkað í tvö mörk. Það lánaðist liðinu ekki og Framarar sigldu öruggum sigri í höfn.

Valsliðið var á hælunum lengst af í fyrri hálfleik og á heildina litið gerði það allt of mörg einföld mistök. Díana Dögg Magnúsdóttir sýndi mikinn baráttuanda í síðari hálfleik. Aðrir leikmenn Vals voru vart með á nótunum um lengri eða skemmri tíma.

Framliðið lék vel, ekki síst var varnarleikur liðsins frábær. Það skilaði sér í hraðaupphlaupum og verðskuldaði liðið öruggan sigur.

Díana Dögg skoraði 9 mörk fyrir Val og var markahæst. Steinunn Björnsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Fram. Ragnheiður Júlíusdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir skoruðu sex mörk hvor þótt nýting þeirra beggja hefði mátt vera skárri.

Valur 25:29 Fram opna loka
60. mín. Fram tapar boltanum - tvígrip
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert