Íslendingar eru sænskir meistarar

Ólafur Andrés Guðmundsson, fyrirliði Kristianstad varð sænskur meistari með liðinu …
Ólafur Andrés Guðmundsson, fyrirliði Kristianstad varð sænskur meistari með liðinu í dag ásamt hinum Íslendingunum tveimur í liðinu, Arnari Frey Arnarssyni og Gunnari Steini Jónssyni. Ljósmynd/Kristianstad

Kristianstad varð í dag sænskur meistari í handknattleik karla fjórða árið í röð eftir að hafa unnið Malmö í æsilegum og framlengdum úrslitaleik, 23:22, í Scandinavium íþróttahöllinni í Gautaborg. Ólafur Andrés Guðmundsson, fyrirliði Kristianstad, tók þar með við meistarabikarnum í leikslok sem var vel við hæfi en hann þótti vera besti maður liðsins í úrslitaleiknum. 

Þetta er í þriðja sinn sem Ólafur verður sænskur meistari með Kristianstad. Hann skoraði fimm mörk í dag og var einu sinni vísað af leikvelli. Arnar Freyr Arnarsson skoraði eitt mark. Gunnar Steinn Jónsson skoraði ekki mark í leiknum og kom ekki mikið við sögu.

Kristianstad var með yfirhöndina í leiknum ef undan eru skildar upphafsmínúturnar. Meistararnir voru með þriggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 11:8. Malmö nálgaðist Kristianstad snemma í síðari hálfleik og eftir það var leikurinn í járnum. Eftir venjulegan leiktíma var staðan jöfn, 20:20, en Anton Blickhammar jafnaði metin fyrir Malmö 80 sekúndum fyrir lok venjulegs leiktíma. 

Vart mátti á milli liðanna sjá í framlengingunni en það voru þó leikmenn Kristianstad sem náðu að kreista úr sigur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert