Nantes getur jafnað við Flensburg og Vardar

Sigurglaðir leikmenn Nantes eftir sigurinn á Paris SG í undanúrslitaleik …
Sigurglaðir leikmenn Nantes eftir sigurinn á Paris SG í undanúrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í handknattleik karla í Lanxess-Arena í Köln í gær. AFP

Franska handknattleiksliðið Nantes tekur nú þátt í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar í handknattleik karla í fyrsta sinn. Í gær tryggði Nantes sér sæti í úrslitum keppninni með sigri á Paris SG í undanúrslitum, 32:28. Nantes er þriðja liðið sem nær að komast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í frumraun sinni í úrslitahelginni.

Hin tvö liðið sem náðu einnig að komast í úrslit í frumraun sinni á úrslitahelgi Meistaradeildarinnar í handknattleik karla eru Flensburg árið 2014 og Vardar á síðasta ári. Bæði lið gerðu gott betur en að komast í úrslit því þau unnu keppnina 2014 og 2017. Nantes getur leikið það eftir í dag en Nantes mætir Montpellier í úrslitaleik í Lanxess-Arena í dag og verður flautað til leiks klukkan 16.

Montpellier hefur reyndar aldrei tekið þátt í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar en félagið átti sigurlið keppninnar fyrir 15 árum en þá var annað fyrirkomulag á keppninni þar sem tvö síðustu liðin mættust í tveimur úrslitaleikjum.

Þetta verður jafnframt í fyrsta sinn sem tvö frönsk félagslið mætast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í handknattleik karla.

Kiril Lazarov, leikmaður Nantes, skoraði átta mörk í undanúrslitaleiknum við Paris SG í gær. Þar með er hann orðinn markahæsti leikmaður úrslitahelgar Meistaradeildarinnar frá upphafi. Lazarov hefur skoraði 58 mörk og getur bætt í safnið í úrslitaleiknum í dag.

Samherji Lazarov, Þjóðverjinn Dominik Klein, leikur í dag sinn sjöunda úrslitaleik í Meistaradeildinni. Hina sex leikina lék hann með Kiel og var m.a. í sigurliði Kiel 2007, 2010 og 2012. Klein ætlar að leggja handknattleiksskóna á hilluna að keppnistímabilinu loknu.

Uwe Gensheimer, hornamaður Paris SG, er markahæsti leikmaður Meistaradeildarinnar á þessari leiktíð ásamt Markus Olsson leikmanni Skjern í Danmörku. Þeir hafa skorað 88 mörk hvor. Gensheimer getur komist upp fyrir Olsson í dag þegar Paris SG leikur við Vardar um þriðja sætið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert