Stefán áfram í Ungverjalandi næstu árin

Stefán Rafn í leik með Pick Szeged.
Stefán Rafn í leik með Pick Szeged. Ljósmynd/Pick Szeged

Landsliðsmaðurinn Stefán Rafn Sigurmannsson hefur framlengt samning sinn við ungverska meistaraliðið Pick Szeged.

Stefán gekk í raðir Pick Szeged fyrir síðustu leiktíð frá danska liðinu Aalborg og átti góðu gengi að fagna með liðinu sem hampaði ungverska meistaratitlinum í fyrsta sinn í 11 ár. Stefán er nú samningsbundinn Szeged til ársins 2021.

„Þetta félag er fullkomið, með frábæra þjálfara, svo það var ekki erfitt að taka ákvörðun um að halda áfram. Samningaviðræðurnar gengu fljótt og vel því ég er í liði og í borg sem mér hefur liðið vel í frá fyrstu mínútu,“ segir Stefán Rafn á vef félagsins.

Stefán Rafn er 28 ára gamall vinstri hornamaður sem er uppalinn hjá Haukum. Árið 2012 gekk hann í raðir þýska liðsins Rhein-Neckar Löwen þar sem hann varð þýskur meistari og vann EHF-keppnina með því. Frá Löwen fór hann til Aalborg í Danmörku árið 2016 þar sem hann fagnaði meistaratitlinum og í fyrrasumar samdi hann við Pick Szeged.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert