Verður pottþétt löngu uppselt

Patrekur Jóhannesson.
Patrekur Jóhannesson. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, viðurkenndi í samtali við mbl.is í dag að hann vissi ekki mjög mikið um Dragunas frá Litháen en liðin drógust saman í 1. umferð EHF-bikarsins í handbolta í dag. Hann er hins vegar strax farinn að undirbúa sitt lið fyrir einvígið.

„Við í þjálfarateyminu á Selfossi erum strax farnir að afla okkur upplýsinga. Við vitum ekki mikið núna en fáum fljótlega upplýsingar, það er erfitt að segja til um styrkleika liðsins en við vitum hvaða ferðalag þetta er.

Ég þekki nokkra leikmenn í Austurríki og hér heima á Íslandi sem þekkja til. Það eru tveir tímar síðan það var dregið svo við eigum eftir að kanna þetta betur. Það voru mörg sterk lið í þessum potti og við tökum þessu. Ísland spilaði við Lithaén í landsleikjum um daginn og það voru mjög jafnir leikir."

Hann segir mikla spennu á Selfossi fyrir Evrópukeppninni. 

„Við erum að fara í nýtt hús í Iðu og það er mikil spenna og tilhlökkun. Það verður pottþétt uppselt löngu fyrir leik ef ég þekki mína menn á Selfossi rétt."

Leikmenn Selfoss eru byrjaðir að æfa og segir Patrekur sína menn í fínu standi fyrir veturinn. 

„Við byrjuðum að æfa í gær, menn hafa verið að lyfta sjálfir og vera með prógram. Fyrsta vikan er róleg hjá mér en það virðast allir nokkuð sprækir," sagði Patrekur að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert