Kreistu fram jafntefli gegn Þýskalandi

Íslenska liðið fyrir leikinn gegn Svíþjóð.
Íslenska liðið fyrir leikinn gegn Svíþjóð. Ljósmynd/HSÍ

Íslenska karla­landsliðið í hand­bolta skipað leik­mönn­um 20 ára og yngri náði að kreista fram jafntefli við Þýskaland, 25:25, með marki á síðustu sekúndu leiksins í þriðja leik sínum á Evrópumótinu í Slóveníu í dag.

Þjóðverjarnir, sem sitja á toppi riðilsins, voru yfir mest allan leikinn og þegar tvær mínútur voru til leiksloka munaði tveimur mörkum. Baráttan í íslensku strákunum var þó til fyrirmyndar og þeir gáfust ekki upp og minnkuðu muninn. Þeir þýsku fengu þar með sókn undir lokin og misstu boltann einum fimm sekúndum frá leikslokum. Darri Aronsson í markinu fleygði þá boltanum upp völlinn endilangan á Birgi Má Birgisson sem skoraði laglegt mark við gífurlegan fögnuð íslenska hópsins.

Íslenska liðið er nú í öðru sæti A-riðils með þrjú stig og Þjóðverjar enn efstir með fjögur. Rúmenar eru í þriðja sæti með tvö stig og Svíar neðstir með eitt en þau mætast nú klukkan 13 að íslenskum tíma og ræðst þá hvort íslenska liðið kemst áfram.

Til þess þarf Svíþjóð að leggja Rúmena, þá fer Ísland áfram með betri innbyrðisviðureign við Svía. Annars verða það Rúmenar sem fylgja Þjóðverjum áfram.

Markaskorarar Íslands: Orri Þorkelsson 5, Arnar Guðmundsson 5, Sveinn Jóhannsson 5, Birgir Már Birgisson 3, Sveinn Andri Sveinsson 2, Birgir Jónsson 2, Sigþór Jónsson 1, Friðrik Jónsson 1, Daníel Griffin 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert