Þetta var liðsheildarsigur

Ágúst Þór Jóhannsson ræðir við Valskonur á hliðarlínunni í dag.
Ágúst Þór Jóhannsson ræðir við Valskonur á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals í Olís-deild kvenna í handknattleik, var sáttur með sex marka sigur gegn KA/Þór í dag. Valur vann 25:19 eftir að hafa komist í 9:1 á upphafskaflanum. Þetta sagði Ágúst Þór um leikinn.

„Liðið mitt byrjaði leikinn virkilega vel og leikmenn voru mjög einbeittir. Við náðum strax góðu forskoti og vorum alveg með þennan leik allan tímann. KA/Þór barðist vel og Akureyringar munu verða erfiðir heim að sækja í vetur. Það vissum við og undirbjuggum okkur vel. Lið þeirra er með mjög góða leikmenn, bæði nokkra unga og svo þessa reyndari. Ég er fyrst og fremst ánægður með sterka liðsheild hjá okkur. Margir voru að leggja sitt af mörkum, bæði varnarlega og sóknarlega. Þetta var klár liðsheildarsigur.“

Þið tapið seinni hálfleiknum og náið bara að skora sjö mörk í honum. Hvað var að gerast hjá ykkur?

„Við vorum ekki að skapa jafn mörg færi en fórum svo bara illa með aragrúa af skotum, sérstaklega úr hraðaupphlaupum. Markvörður KA/Þórs var að verja vel en ég hafði aldrei áhyggjur á meðan varnarleikur okkar og markvarsla var í lagi“ sagði Ágúst Þór að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert