Sigvaldi öflugur í Meistaradeildinni

Sigvaldi Björn Guðjónsson í búningi Århus í Danmörku en hann …
Sigvaldi Björn Guðjónsson í búningi Århus í Danmörku en hann kom þaðan til Elverum í sumar. Ljósmynd/Ole Nielsen

Sigvaldi Björn Guðjónsson lét mikið til sín taka í Meistaradeild Evrópu í handknattleik en hann var markahæstur á vellinum í kvöld þegar norsku meistararnir Elverum tóku á móti Wisla Plock frá Póllandi í D-riðli keppninnar.

Sigvaldi, sem gerði 12 mörk í síðasta deildarleik Elverum, hélt uppteknum hætti og skoraði 9 mörk gegn Pólverjunum. Þau dugðu þó ekki því Wisla Plock fór heim með bæði stigin eftir sigur, 30:28.

Elverum hefur þar með tapað tveimur fyrstu leikjum sínum í Meistaradeildinni með tveggja marka mun en liðið tapaði 26:24 fyrir Dinamo Búkarest í Rúmeníu í fyrstu umferðinni.

Stefán Rafn Sigurmannsson og samherjar í ungverska liðinu Pick Szeged eru hins vegar með 4 stig eftir tvær umferðir í B-riðli en þeir unnu Nantes frá Frakklandi, 30:28, á heimavelli í kvöld. Stefán skoraði ekki í leiknum.

Dönsku meistararnir Skjern unnu góðan heimasigur á Motor Zaporozhye frá Úkraínu, 37:33. Tandri Már Konráðsson skoraði ekki fyrir Skjern og Björgvin Páll Gústavsson kom lítið við sögu í markinu. Skjern er líka komið með 4 stig eftir tvo fyrstu leiki sína í B-riðli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert