Nýliðarnir stálu senunni

Díana Kristín Sigmarsdóttir og samherjar hannar í HK unnu góðan …
Díana Kristín Sigmarsdóttir og samherjar hannar í HK unnu góðan sigur á ÍBV. mbl.is//Hari

Því var haldið fram áður en flautað var til leiks í Olís-deild kvenna í handknattleik að deildarkeppnin yrði jöfn. Liðin átta væru jafnari en talið væri.

Þótt enn sé nokkuð snemmt að slá einhverju föstu í þessum efnum þá má draga þá ályktun af úrslitum annarrar umferðar að e.t.v. sé eitthvað til í að deildarkeppnin verði jöfn. Í umferðinni sem fram fór um liðna helgi lauk einum leik með jafntefli, aðeins munaði einu marki á liðunum í öðrum leik og tveimur viðureignum lauk með tveggja marka mun.

Nýliðar deildarinnar, KA/Þór annarsvegar og HK hinsvegar stálu senunni í umferðinni. Sviðskrekkurinn sem vart varð við í fyrstu umferð virtist að baki. Bæði lið unnu á útivelli sem var ekki síður athyglisvert, ekki síst í ljósi þess að bæði töpuðu þau í fyrstu umferð á heimavelli.

HK, sem komst upp í deildina í gegnum umspil, gerði sér lítið fyrir og vann sætan sigur á ÍBV í Vestmannaeyjum, 22:21, þar sem ÍBV-liðin, jafnt kvenna sem karla, hafa ekki lagt í vana sinn að tapa mörgum leikjum. Í jafnri viðureign skoraði Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir sigurmarkið fyrir HK, á síðustu sekúndu leiksins, framhjá ágætum markverði, Guðnýju Jennýju Ásmundsdóttur, sem skaraði framúr í liði ÍBV.

Frænkurnar leika saman

Valgerður Ýr er af íþróttafjöskyldu. Hún leikur við hlið frænku sinnar Sigríðar Hauksdóttur í HK-liðinu. Þær eru systradætur og barnabörn einnar af goðsögnum íslensks handknattleiks, Sigríðar Sigurðardóttur, íþróttamanns ársins 1964, fyrirliða Vals og íslenska landsliðsins um árabil. Afi þeirra, Guðjón Jónsson, átti einnig framúrskarandi feril sem þjálfari og leikmaður hjá Fram og landsliðinu svo ekki sé minnst á mæður þeirra Valgerðar Ýrar og Sigríðar, Hafdísi og Guðríði. Þær eru meðal sigursælustu handknattleikskvenna hér á landi og sú síðarnefnda talin vera ein sú besta sem fram hefur komið á handknattleikssviðinu hér á landi. Faðir Valgerðar, Þorsteinn Halldórsson, fagnaði í vikunni sem leið Íslandsmeistaratitli annað árið í sem þjálfari kvennaliðs Breiðabliks. Hann þótti góður fótboltamaður á sínum tíma. Faðir Sigríðar, Haukur Þór Haraldsson, lék um árabil með handknattleiksliði Ármanns. Segjum svo að íþróttaáhuginn og getan liggi ekki í fjölskyldum.

Sjá alla umfjöllunina um 2. umferðina í Olís-deild kvenna í handknattleik ásamt úrvalsliði 2. umferðarinnar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert