Frostið í Garðabæ og grátt leiknir Eyjamenn

Rúnar Sigtryggsson og lærisveinar hans í Stjörnunni hafa byrjað tímabilið …
Rúnar Sigtryggsson og lærisveinar hans í Stjörnunni hafa byrjað tímabilið illa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karlalið Stjörnunnar virðist eiga í erfiðleikum. Liðið byrjaði illa gegn Aftureldingu í fyrstu umferð og í fyrrakvöld var ekki annað að sjá en liðið hjakkaði í sama farinu þegar það mætti Val.

Leikbönn og meiðsli afsaka ekki andleysi og 16 marka tap. Þjálfari Stjörnunnar, Rúnar Sigtryggson, brosir í gegnum tárin. Með frétt um að mesta frost á höfuðborgarsvæðinu hafi mælst í Garðabæ skrifaði hann á Twitter: „Veðurstofan er meira að segja með þetta á hreinu...“

Skýru skilaboðin sem leikmenn KA sendu með stórsigri sínum á Haukum í KA-heimilinu í annarri umferð voru greinilega aðeins ætluð þeim sem sækja KA-menn heim. Annað er upp á teningnum þegar norðanmenn koma á útivöll eins og sást á heimsókninni í Safamýri þar sem Fram vann sinn fyrsta leik á keppnistímabilinu.

Kristján Orri Jóhannsson lék leikmenn ÍBV grátt og skoraði 13 mörk hjá þeim í fyrsta sigurleik ÍR í deildinni á heimavelli á leiktíðinni, 31:28. ÍBV-liðið glímir enn við erfiðleika í vörn og markvörslu og hefur ásamt botnliðunum tveimur, Akureyri og Stjörnunni, fengið ríflega 30 mörk að jafnaði í leik fram til þessa. „Nú er hún Snorrabúð stekkur,“ kvað Jónas Hallgrímsson.

Væntanlega er of snemmt að segja það sama um vörn ÍBV?

Rauðu spjöldunum fjölgar

Talsvert hefur verið rætt um hversu oft dómarar hafa sýnt rauða spjaldið á leiktíðinni í Olís-deild karla. Átján leikjum er lokið og þegar hafa níu rauð spjöld farið á loft fyrir grófan leik. Enn sem komið er hefur enginn verið úrskurðaður í leikbann vegna þessa, sem er athyglisvert. Rautt spjald hefur sem sagt farið á loft í öðrum hverjum leik til þessa. Ef marka má upplýsingar á heimasíðu Handknattleikssambands Íslands þá fór rauða spjaldið á loft í 52 skipti í 132 leikjum Olís-deildar á síðustu leiktíð og 30 sinnum í 135 leikjum veturinn 2016/2017.

Ljóst er af þessari tölfræði að annaðhvort hefur harkan aukist mikið í karlahandboltanum á síðustu árum eða þá að dómarar hafa augun betur hjá sér.

Sjá ítarlega úttekt á 3. umferð Olís-deildar karla og úrvalslið 3. umferðarinnar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert