Hitti á góðan dag

Magnús Óli Magnússon var frábær í liði Valsmanna í kvöld …
Magnús Óli Magnússon var frábær í liði Valsmanna í kvöld og skoraði fimm mörk. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var góður karakter sigur hjá okkur. Við vissum það fyrir leikinn að ÍR er með hörkulið og við þurftum að gefa okkur alla í þetta til þess að krækja í tvö stig í kvöld,“ sagði Magnús Óli Magnússon, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 28:22-sigur liðsins gegn ÍR í 4. umferð Olís deildar karla í handknattleik á Hlíðarenda í kvöld en Magnús átti frábæran leik og skoraði fimm mörk á ögurstundu í leiknum.

„Við börðumst um alla lausa bolta og sýndum mikinn karakter, sérstaklega í síðari hálfleik. Það vantaði aðeins upp á hjá okkur í fyrri hálfleik og við vorum ekki að gefa okkur alla í þetta, svo einfalt er það. Snorri (þjálfari Valsmanna) ræddi það við okkur í hálfleik og sagði okkur einfaldlega að sleppa af okkur beislunum. Við gerðum það og mér fannst sigurinn sanngjarn, þegar uppi var staðið. Ég hélt kannski of mikið aftur af mér í fyrri hálfleik en ákvað að keyra meira á þá í síðari hálfleik. Þetta var stöngin inn hjá mér og ég hitti á góðan dag."

Valsmenn eru á toppi deildarinnar með 7 stig ásamt FH eftir fyrstu fjóra leiki sína. Magnús segir að markmiðið sé að enda tímabilið á toppi deildarinnar.

„Markmiðið er fyrst og fremst að vera í toppsætinu og halda því. Við erum á þeim stað í töflunni þar sem við viljum vera en það er nóg eftir af tímabilinu. Við þurfum að halda áfram að æfa eins og menn, vera full einbeittir og klárir í næsta leik,“ sagði Magnús Óli í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert