FH úr leik eftir annað tap í Portúgal

Ásbjörn Friðriksson skoraði tíu mörk í fyrri leiknum í gær.
Ásbjörn Friðriksson skoraði tíu mörk í fyrri leiknum í gær. mbl.is/Hari

FH er úr leik í EHF-bikarkeppni karla í handknattleik eftir annað tap fyrir Benfica frá Portúgal í viðureign liðanna í 2. umferð keppninnar. Báðir leikirnir fóru fram í Lissabon, en FH tapaði fyrri leiknum með fimm mörkum í gær. Í dag vann Benfica þriggja marka sigur, 34:31, og vann því einvígið samtals með átta mörkum.

Staðan í hálfleik í dag var 18:15 fyrir Benfica. FH náði ekki að brúa það bil eftir hlé og reyna að vinna upp fimm marka forskot portúgalska liðsins og mátti að lokum sætta sig við þriggja marka tap og átta marka tap samanlagt í einvíginu.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði átta mörk fyrir FH í leiknum en næstur var Jóhann Birgir Ingvarsson með sex mörk. ÍBV féll sömuleiðis úr leik í þessari keppni fyrr í dag en Selfoss er komið áfram í 3. umferðina.

Mörk FH í dag: Bjarni Ófeigur Valdimarsson 8, Jóhann Birgir Ingvarsson 6, Ásbjörn Friðriksson 3, Einar Rafn Eiðsson 3, Hlynur Jóhannsson 2, Jóhann Kaldal Jóhannsson 2, Arnar Freyr Ársælsson 2, Birgir Már Birgisson 2, Jakob Martin Ásgeirsson 1, Ágúst Birgisson 1, Birkir Fannar Bragason 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert