Fannst hann hoppa beint inn á völlinn

Elvar Ásgeirsson sækir að marki Eyjamanna í kvöld.
Elvar Ásgeirsson sækir að marki Eyjamanna í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elvar Ásgeirsson var markahæsti leikmaður Aftureldingar með sex mörk er liðið gerði 28:28-jafntefli við ÍBV á heimavelli í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Elvar var svekktur eftir leikinn enda var Afturelding yfir nánast allan leikinn og ÍBV jafnaði með síðasta skotinu. 

„Akkúrat núna er ég hundfúll með að fá bara eitt stig út úr þessu. Við vorum yfir allan leikinn en þú skilur ÍBV ekkert eftir, en mér fannst við vera með þá síðasta kortérið. Þetta datt hins vegar svona.

Við byrjuðum mjög sterkt, sérstaklega í vörninni. Menn voru að vinna fyrir hver annan og vinna skítavinnuna og það gekk mjög vel. Þeir breyttu svo í sjö á móti sex og við náðum ekki alveg að leysa það. Þeir gerðu það vel en við máttum bregðast betur við því.“

Elvar var ósáttur við jöfnunarmark ÍBV og fannst honum í fyrstu að markið hefði ekki átt að standa. 

„Mér fannst hann hoppa beint inn á völlinn í innkastinu. Ég sá hann ekki stíga á línuna og ég var að tuða yfir því. Ég þarf að sjá þetta aftur því þetta gerðist hratt, ég sá hann vera inn á, en kannski er það vitlaust hjá mér,“ sagði Elvar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert