„Þegar taflan klikkar þá klikkum við líka“

Snorri Steinn Guðjónsson.
Snorri Steinn Guðjónsson. mbl.is/Hari

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var svekktur eftir 28:24 tapið gegn Selfossi í Olísdeild karla í handbolta í kvöld og sagði að sitt lið ætti mikið inni.

„Við töpum bara fyrir betra liði. Við vorum ekki að spila góðan leik en við vorum inni í þessu lungann úr leiknum. Þegar taflan klikkar þá klikkum við líka, ekki það að það sé einhver afsökun. Við vorum lélegir á síðasta kortérinu en heilt yfir þá eigum við mikið inni og það eru margir leikmenn sem eiga mikið inni. Ekki frábær leikur af okkar hálfu, við veitum þessu góða liði keppni en það eru vonbrigði að tapa,“ sagði Snorri Steinn í samtali við mbl.is eftir leik.

Leikklukkan í Hleðsluhöllinni fraus þegar rúmar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum og eins og Snorri Steinn sagði frusu Valsmenn á sama tíma. Selfyssingar voru frábærir á lokakaflanum.

„Það er fullt af hlutum sem við þurfum að laga. Ég þarf að skoða sóknarleikinn okkar, hvort þetta sé sóknarleikurinn hjá okkur eða Pawel í markinu hjá þeim, auðvitað var hann að verja frábærlega. Við vorum að koma okkur ágætlega í færi á köflum en vorum ekki að nýta það nógu vel. Við réðum mjög illa við Elvar Örn [Jónsson] á lokakaflanum, hann tók þetta svolítið á sínar herðar og Hergeir [Grímsson] fylgdi með. VIð breytum um vörn í kjölfarið en fundum ekki lausnir og komumst ekki aftur í takt við leikinn,“ sagði Snorri Steinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert