Við verðum að ná toppleikjum

Lovísa Thompson og liðsfélagar hennar í Val spila í Hollandi …
Lovísa Thompson og liðsfélagar hennar í Val spila í Hollandi um helgina. mbl.is/Árni Sæberg

„Þær eru á að líta stórar og sterkar og leika hraðan handknattleik, dæmigerðan hollenskan handknattleik eins og menn þekkja frá hollenska landsliðinu sem er eitt það besta í Evrópu,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals í handknattleik, spurður um væntanlega andstæðinga Valsliðsins, lið HV Quintus. Valur sækir hollenska liðið heim til tveggja leikja í Áskorendakeppni Evrópu, 32-liða úrslitum, á morgun og sunnudag.

„Mér finnst liðið vera virkilega flott. Það leikur 6/0 vörn og er með góða markverði og hraðinn er mikill í sókninni. Við verðum að ná toppleikjum til þess að standa þessu liði á sporði,“ sagði Ágúst sem fer út með lið árdegis í dag.

Fjöldi leikmanna í yngri landsliðum Hollands

HV Quintus situr í öðru sæti hollensku A-deildarinnar með 12 stig að loknum sjö leikjum. Leikmannahópur HV Quintus er að mestu skipaður ungum leikmönnum. „Þrír leikmenn HV Quintus-liðsins eru í 20 ára landsliði Hollands og níu voru í 18 ára landsiðinu síðast þegar það kom saman,“ sagði Ágúst sem hefur undir höndum talsvert að nýjum upptökum af leikjum liðsins. Þar af leiðandi telur hann sig geta búið Valsliðið vel undir leikina sem hann reiknar fastlega með að verði erfiðir.

„Í bland við þær ungu eru nokkrar reyndar. Um er að ræða afar sprækt lið. Það segir talsvert um styrkinn á liðinu að það er í öðru sæti hollensku deildarinnar en oft eru þrjú bestu liðin í deildunum í Evrópu mjög góð,“ sagði Ágúst.

„Við búum okkur undir erfiða leiki. Okkar meginmarkmið verður að halda áfram á þeirri leið sem við höfum verið á síðustu vikur, það er að bæta okkar leik, jafnt í vörn sem sókn. Fyrst og fremst ætlum við að ná góðum úrslitum í fyrri leiknum svo við eigum möguleika þegar kemur að síðari leiknum á sunnudaginn. Ég sé á upptökum frá heimaleikjum liðsins að það er hörkugóð stemning á leikjum, sem verður gaman fyrir okkur að fá reynslu af,“ sagði Ágúst.

Viðtalið í heild sinni má sjá í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert