Snýst um að ná í stigin tvö

Jóahnn Reynir Gunnlaugsson, leikmaður Gróttu, sækir að Þrándi Gíslasyni Roth …
Jóahnn Reynir Gunnlaugsson, leikmaður Gróttu, sækir að Þrándi Gíslasyni Roth í leiknum í Austurbergi. Arnar Freyr Guðmundsson, ÍR-ingur fylgist grannt með og Sveinn Jose Rivera línumaður Gróttu er viðbúinn að grípa boltann berist boltinn til hans. mbl.is/Hari

„Þetta var ágætisleikur hjá okkur á köflum þótt að ýmsilegt hafi betur mátt fara eins og alltaf. Fyrst og fremst snýst hver leikur um að ná í stigin tvö sem eru í boði,“ sagði Sturla Ásgeirsson, einn leikmanna ÍR, eftir að liðið vann Gróttu, 26:21, í Olís-deild karla í handknattleik í íþróttahúsinu í Austurbergi í kvöld.

„Varnarleikurinn var ekki nógu góður hjá okkur fyrstu 20 mínúturnar. Um leið og við náðum að bæta vörnina og loka á samspil milli Jóhanns Reynis og Sveins á línunni þá tóku við völdin í leiknum, komust yfir. Í síðari hálfleik fannst mér sigurinn aldrei vera í hættu hjá okkur þótt ljóst væri að við mættum aldrei slaka á,“ sagði Sturla sem segir að Gróttuliðið sé ólseigt. Það leiki langar sóknir og láta skynseminu að ráða för sem gerir að verkum að það tapi sjaldan boltanum.

„Það má ekki gera mörg mistök gegn þeim nema að eiga á hættu að hleypa þeim inn í leikinn. Stephen Nielsen markvörður hélt okkur á köflum inn í leiknum,“ sagði Sturla sem sagði stigin hafa verið nauðsynleg enda hafi ÍR og Grótta verið jöfn að stigum fyrir leikinn. „Þetta var fjögurra stiga leikur fyrir okkur. Sigrar gegn liðunum í kringum okkur eru nauðsynleg fyrir okkur til þess að komast ofar í stigatöflunni," sagði Sturla Ásgeirsson, hinn reyndi hornamaður ÍR-ingar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert