„Við fórum að berjast eins og lið“

Það var hart barist í Framhúsinu í kvöld.
Það var hart barist í Framhúsinu í kvöld. mbl.is/Hari

Hanna Guðrún Stefánsdóttir tryggði Stjörnunni jafntefli gegn Íslandsmeisturum Fram, 24:24, með marki úr vítakasti á síðustu sekúndu leiksins í viðureign liðanna í Framhúsinu Olísdeildinni í handknattleik í kvöld. Hún var að vonum nokkuð sátt með stigið eftir það sem undan gekk í viðtali við mbl.is eftir leik.

„Fyrri hálfleikurinn var ekki nógu góður, við vorum að flýta okkur og gera mistök en svo gerist eitthvað í þeim síðari. Við fórum að berjast eins og lið sem hefur stundum vantað. Þetta er mikið púsluspil hjá okkur en við erum á leiðinni upp.“

Framarar voru mest sjö mörkum yfir í kvöld og virtust á góðri leið með að vinna þægilegan sigur um tíma en Hanna hrósaði hugarfari Stjörnuliðsins sem neitaði að gefast upp.

„Framliðið vinnur leikina sína á hraðaupphlaupum og ef maður stoppar það þá er hægt að halda í við þær. Við náðum að gera það í síðari hálfleik og gáfumst ekki upp þrátt fyrir að vera sjö mörkum undir á tímabili, ég er ógeðslega glöð yfir að hafa náð í þennan punkt í dag, þetta leit ekki vel út á tímabili.“

Hanna Guðrún Stefánsdóttir.
Hanna Guðrún Stefánsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert