Hrun hjá Löwen í stórleiknum

Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það var stórleikur á dagskrá í þýsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld þegar ríkjandi meistarar Flensburg tóku á móti Íslendingaliði Rhein-Neckar Löwen. Ljónin áttu mjög erfitt uppdráttar í seinni hálfleik og Flensburg vann leikinn 27:20.

Staðan var hnífjöfn í hálfleik, 14:14, en allt hrundi hjá Löwen eftir hlé. Gestirnir skoruðu aðeins þrjú mörk á fyrstu 20 mínútum síðari hálfleiks og náðu þeir aldrei að jafna bilið á lokasprettinum. Lokatölur 27:20 fyrir Flensburg.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði fimm mörk fyrir Löwen og var næst markahæsti leikmaður liðsins á eftir Andy Schmid sem skoraði sex, eins og Magnus Jondal og Hampus Wanne hjá Flensburg. Alexander Petersson skoraði þrjú mörk fyrir Löwen.

Flensburg hefur unnið alla 13 leiki sína á tímabilinu til þessa og er á toppi deildarinnar en Löwen er í fjórða sætinu með 19 stig eftir 12 leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert