Það ætlaði enginn að meiða neinn

Halldór Jóhann Sigfússon.
Halldór Jóhann Sigfússon. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég get ekki annað en verið sáttur við stig þegar þeir klikka á skoti á síðustu sekúndunni,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, eftir 28:28-jafntefli gegn Val í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. „Ég er mjög ósáttur með hvernig við komum inn í hálfleikinn. Fyrstu tíu mínúturnar voru slakar, en annars var leikurinn góður af okkar hálfu,“ bætti hann við. 

Valsmenn fengu kjörið tækifæri til að skora sigurmarkið eftir að leiktíminn rann út, en Anton Rúnarsson klikkaði á víti eftir lokaflautið. Valsmenn fengu vítið eftir ljótt brot Ásbjörns Friðrikssonar á Róberti Aroni Hostert á lokasekúndunum. Dómarar leiksins notuðu myndbandsupptökur til að taka ákvörðunina, en Halldór var ekki sáttur við atvikið, þar sem honum fannst Valur taka ólöglega miðju rétt á undan. 

VAR komið til að vera

„Þessi VAR-dómgæsla er komin til að vera. Það er enginn að tuða yfir atvikinu sem slíku, þeir sjá það og ákveða út frá því. Það sem við erum að benda á er að miðjan er kolröng og þeir græða á því. 

Það ætlaði enginn að meiða neinn og við vitum af reglunni að ef menn fá rautt spjald í lokin er það víti. Við ætluðum að stoppa hann og því miður fór þetta svona. Vonandi er í lagi með Robba og það verði engir eftirmálar. Hann var á miklum hraða og lendir illa.“

Halldór var sáttur með ansi margt í leik sinna manna. 

„Við vorum að klikka á rosalega mörgum dauðafærum á móti Danna sem er frábær markmaður. Við vorum að koma okkur í færi og skorum 28 mörk. Þau hefðu hins vegar getað verið 35 miðað við dauðafærin. Ég er stoltur af mínu liði,“ sagði Halldór Jóhann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert