Þreytandi að vera tilraunadýr fyrir karla

Norska liðið fagnaði stórsigri í gærkvöld gegn Tékkum, eftir sárt …
Norska liðið fagnaði stórsigri í gærkvöld gegn Tékkum, eftir sárt tap gegn Þýskalandi í fyrsta leik. AFP

Þórir Hergeirsson, þjálfari ríkjandi Evrópumeistara Noregs í handbolta kvenna, varpaði fram þeirri spurningu eftir sigurinn á Tékklandi á EM í gær hvort stórmót kvenna ættu í alvöru að vera til þess að undirbúa dómara fyrir stórmót karla.

Þórir var ekki ánægður með dómaraparið Mariu og Sofiu Bennani sem dæmdu leikinn í gær og gáfu meðal annars Marit Røsberg Jacobsen rautt spjald eftir sjö mínútna leik. Það breytti því ekki að Noregur vann stórsigur, 31:17, en Þórir vill að bestu dómarapör Evrópu dæmi á mótinu enda leiki þar bestu kvennalandslið álfunnar:

„Ég vil dómurunum ekkert illt. Þær gerðu eins vel og þær gátu. Þær vilja verða bestar og eru að æfa sig. Spurningin mín er sú hvort stórmót kvenna sé rétti staðurinn til að æfa sig? Bestu dómararnir dæma stórmót karla, og næstbestu dómararnir í Meistaradeild karla sem er núna í gangi,“ sagði Þórir við Dagbladet.

„Hvar er jafnréttið? Ég er búinn að tala um þetta í mörg ár. Við þurfum að fá bestu dómarana. Þeir eiga að vera bæði á karla- og kvennamótunum,“ sagði Þórir við Dagbladet, og í samtali við TV3 strax eftir leik sagði hann einnig:

„Ég er að verða mjög þreyttur á því að við séum tilraunadýr svo að dómarar geti orðið betri. Þetta er stórmót, það gerist ekki stærra. Við fáum efnilega dómara en þeir eru að æfa sig á þessu móti, með von um að þeir verði nægilega góðir til þess að dæma hjá körlunum.“

Þórir Hergeirsson.
Þórir Hergeirsson. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert