„Ætluðum ekki að vera með nein leiðindi“

Stefán Rúnar Árnason, þjálfari KA.
Stefán Rúnar Árnason, þjálfari KA. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Stefán Árnason, þjálfari KA í Olís-deildinni í handbolta, var vígreifur eftir sigur KA á Fram í kvöld. KA nældi sér þar með í tvö dýrmæt stig í neðri helmingi deildarinnar og skildi Fram eftir í verri málum. KA vann 24:18 í leik þar sem varnarleikur og markvarsla voru í mun hærri gæðum en sóknarleikur.

Stefán, þetta var lífsnauðsynlegur sigur fyrir ykkur.

„Heldur betur. Þetta var hrikalega nauðsynlegt og það var búið að blása þennan leik mikið upp sem fjögurra stiga leik. Þetta var klárlega leikur sem við ætluðum að vinna, sérstaklega þar sem við vorum að tapa þessum svokölluðu fjögurra stiga leikjum í fyrri hluta mótsins. Við litum dálítið illa út í þeim leikjum og sýndum smá veikleikamerki. Við erum búnir að vera harðir á því að koma í seinni hlutann og vera svolítið svalir. Mér fannst það svona einkenna okkur í leiknum. Þetta var alls ekki fallegasti handboltinn en þetta vannst svona á dálítið gamaldags vörn og að fá á sig átján mörk er bara frábært.“

Það vantaði ekkert upp á varnarleikinn hjá ykkur og hann skóp þennan sigur.

„Við stimpluðum okkur strax inn í leikinn. Vörnin virkaði frá fyrstu mínútu en við gerðum ákveðnar áherslubreytingar á varnarleiknum á lokadögunum fyrir þennan leik og það var gaman að sjá hvernig menn komu til leiks í þeim hlutverkum sem menn voru í. Framararnir náðu aldrei að komast almennilega inn í leikinn og mér fannst við stýra honum. Á meðan við getum spilað þessa vörn og fengið svona markvörslu þá er þetta svolítið í okkar höndum og það var gaman að sjá þetta í dag.“

Sóknarleikur ykkar gekk ágætlega í fyrri hálfleik en það var lítið að frétta framan af í þeim seinni.

„Það verður að segjast eins og er að við leystum þessa 5-1 vörn Framara afar illa. Þetta skánaði aðeins þegar leið á og við fengum þá nokkur mörk. Þessi vörn þeirra riðlaði agalega tempóinu í sókninni. Það fór allur hraði úr sókninni okkar og við þurfum klárlega að læra af þessu. Svo bætti ekki úr skák að Viktor Gísli varði virkilega vel allan seinni hálfleikinn, oft úr dauðafærum okkar. Í þau fáu skipti sem við vorum að gera eitthvað af viti þá brenndum við af en þá höfðum við vörnina og Jovan hinum megin sem héldu Fram í hæfilegri fjarlægð. Það í rauninni bjargaði þessu fyrir okkur. Maður þarf samt að vera góður báðum megin.“

Segðu mér hvað var að gerast þarna í lokin. Þú varst farinn að spila vörnina með leikmönnum, tókst svo leikhlé með unninn leik þegar stutt var eftir. Menn hafa verið gagnrýndir fyrir slíkt.

„Við vorum nú bara að hugsa að fyrri leiknum í Safamýrinni lauk með fimm marka sigri Fram og það var smá séns á að geta unnið þennan með sex mörkum. Sá möguleiki opnaðist þarna í blálokin og við vildum bara baktryggja okkur ef liðin verða jöfn og innbyrðis viðureignir fara að telja. Það var nú eina hugsunin í þessu. Við þurftum því þetta sjötta mark sem við fengum í lokasókninni eftir góða útfærslu. Við ætluðum ekki að vera með nein leiðindi og vorum bara að hugsa um stöðu okkar í töflunni,“ sagði Stefán að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert