„Vantaði herslumuninn undir restina“

Stefán Árnason, þjálfari KA, ræðir við sína menn í kvöld.
Stefán Árnason, þjálfari KA, ræðir við sína menn í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Stefán Árnason, þjálfari KA í Olís-deild karla í handbolta, fékk snúið verkefni í kvöld þegar Selfoss kom í KA-heimilið. Verkefnið var ærið en stækkaði til muna í fyrri hálfleik þegar Selfyssingar hreinlega kafsigldu heimamenn.

Selfoss komst í 20:13 snemma í seinni hálfleiknum en seigla KA kom muninum nokkrum sinnum niður í tvö mörk. Þar sigldu KA-menn í strand og Selfoss vann leikinn 29:27.

Jæja Stefán. Þetta var slæm staða sem þið komuð ykkur í í kvöld.

„Já við gáfum þeim of mikið forskot til að ná einhverju út úr leiknum. Það var þarna kafli í fyrri hálfleik þar sem við köstuðum leiknum dálítið frá okkur. Við fengum á okkur hraðaupphlaup og þeir skoruðu í autt markið. Þar hefðum við þurft betri leik. Ég tók annað leikhléið okkar eftir 20 mínútur og eftir það náðum við að kveikja smá neista sem við komum svo með inn í seinni hálfleikinn. Við vorum sex mörkum undir í hálfleik og mest sjö mörkum undir í seinni hálfleiknum.

Gegn svona sterku liði þá er bara erfitt að lenda svona mikið undir. Það var ekki ógerlegt að vinna muninn upp en mjög erfitt. Í heildina þá vorum við að spila seinni hálfleikinn vel. Vörnin fór að virka og við skoruðum sautján mörk. Það vantaði bara herslumuninn undir restina til að fá stig. Selfoss er bara ógnarsterkt lið og þeir spiluðu fyrri hálfleikinn frábærlega. Krafturinn og takturinn í þeim í byrjun leiks og þessar klippingar í sókninni. Við bara komumst ekkert nálægt þeim,“ sagði Stefán Árnason að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert