Vignir í aðgerð og úr leik

Vignir Svavarsson verður ekki meira með Holstebro.
Vignir Svavarsson verður ekki meira með Holstebro. Ljósmynd/Foto Olimpik

Vignir Svavarsson hefur leikið sinn síðasta leik með danska handboltaliðinu Holstebro. Línumaðurinn er á leiðinni í aðgerð vegna hnémeiðsla og verður frá út tímabilið.

Vignir hefur komist að samkomulagi um að spila með Haukum næsta vetur og spilar hann því ekki aftur með Holstebro. Vignir hefur lengi glímt við meiðsli í hné og hefur ekki verið sársaukalaust að leika handbolta. 

Nú er sársaukinn hins vegar orðinn of mikill og þarf Vignir að fara í aðgerð. Hann var svekktur við þessa niðurstöðu er hann ræddi við hbold.dk. „Það er leiðinlegt að ferill minn hjá Holstebro sé á enda vegna meiðsla,“ sagði Vignir. 

„Ég hef reynt að spila í gegnum sársaukann, en þetta var orðið of vont. Það er nauðsynlegt að fara í aðgerð. Þetta er mjög svekkjandi og ég hefði viljað öðruvísi endalok hjá félaginu,“ bætti Vignir við. 

Holstebro er í fimmta sæti dönsku 1. deildarinnar og að öllum líkindum á leiðinni í átta liða úrslitakeppni um danska meistaratitilinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert