Íslendingalið öruggt áfram í Evrópu

Bjarki Már Elísson.
Bjarki Már Elísson.

Bjarki Már Elísson skoraði sex mörk fyrir þýska liðið Füch­se Berl­in í 34:31 tapi á útivelli gegn St. Raphaël í Frakklandi í EHF-bikarnum í handknattleik í kvöld. Þá skoraði Óðinn Þór Ríkharðsson þrjú mörk í stórsigri GOG, 41:29, gegn Azoty-Pulawy í Danmörku.

Þrátt fyrir tapið eru Bjarki og félagar áfram efstir í A-riðli og öruggir um efsta sætið, takist þeim að leggja botnlið Balatonfuredi frá Ungverjalandi sem er án stiga í keppninni. Berlín vann fyrri leikinn gegn St. Raphaël með fimm mörkum og er því ofar á innbyrðis viðureignum. Bjarki og félagar frá Berlín unnu keppnina í fyrra og ætla sér alla leið aftur í ár.

Þá eru þýsku lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Kiel búnir að tryggja sér efsta sætið í D-riðli eftir 34:28-heimasigur gegn Granollers frá Spáni. Gísli Þorgeir Kristjánsson lék ekki með Kiel í kvöld vegna meiðsla. Óðinn Þór og félagar í danska liðinu GOG unnu gríðarlega mikilvægan stórsigur á Azoty-Pulawy frá Póllandi og eru því öruggir með annað sætið í riðlinum. Aðeins þrjú af þeim fjórum liðum sem hafna í öðrum sætum riðlanna fara áfram og því er GOG ekki öruggt um sæti í 8-liða úrslitunum enn.

Þá tókst danska liðinu Holstebro að halda von sinni um að komast áfram á lífi með því að sigra Constanta í Rúmeníu, 28:22. Liðin eru þar með jöfn að stigum í öðru sæti C-riðils, bæði með fjögur stig, og mun það ráðast í lokaumferðinni hvort annað liðið fari áfram. Vignir Svavarsson er á mála hjá Holstebro en leikur ekki meira með liðinu eftir að hafa farið í aðgerð vegna hnémeiðsla.

Óðinn Þór Ríkharðsson.
Óðinn Þór Ríkharðsson. Ljósmynd/GOG.dk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert