Ágúst mikilvægur í óvæntum sigri

Ágúst Elí Björgvinsson í landsleik.
Ágúst Elí Björgvinsson í landsleik. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ágúst Elí Björgvinsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik, átti drjúgan þátt í óvæntum útisigri Sävehof á Malmö, 28:25, í framlengdum leik í fyrstu umferð átta liða úrslitanna um sænska meistaratitilinn í dag.

Sävehof endaði í sjöunda sæti deildarinnar í vetur og Malmö í öðru sæti en nú hafa Ágúst og félagar náð undirtökunum í einvíginu og fá tækifæri til að komast í 2:0 á sínum heimavelli. Þrjá sigra þarf til að komast í undanúrslitin.

Ágúst hrökk vel í gang í seinni hálfleiknum og varði alls 12 skot í leiknum, var með 37,5 prósent markvörslu, og Anders Eliasson þjálfari hrósaði honum eftir leikinn.

„Ágúst sótti sig mjög þegar leið á leikinn og margar af markvörslum hans voru gríðarlega mikilvægar,“ sagði Eliasson á vef Sävehof.

Liðin mætast á heimavelli Sävehof í Partille í Gautaborg á fimmtudaginn og þriðji leikurinn verður í Malmö 5. apríl. Komi til fjögurra eða fimm leikja fara þeir fram 17. og 22. apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert