Þetta er tekið frá okkur

Halldór Jóhann Sigfússon.
Halldór Jóhann Sigfússon. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH-inga, var í raun æfur eftir tap sinna manna gegn ÍBV úti í Eyjum í dag. Leiknum lauk með tveggja marka sigri Eyjamanna en gestirnir frá Hafnarfirði leiddu allan leikinn, áður en að Eyjamenn skoruðu 57. mark leiksins og komu sér einu marki yfir.

„Þetta var kannski ekki fallegur leikur en mér fannst við spila ágætlega lengi, mér finnst þetta tekið frá okkur í lokin, dæmi hver fyrir sig en það er bara þannig. Ég hugsa að við getum alveg verið sammála um það, það eru tveir dómar með Gústa Birgis (Ágúst Birgisson), þar sem er alveg óskiljanlegt að hann fái ekki víti. Leonharð er rifinn niður í horninu og fær ekki víti, ég átta mig ekki alveg á þessu,“ sagði Halldór og hélt áfram, en Eyjamenn fengu eina tveggja mínútna brottvísun gegn átta hjá FH-ingum.

„Kannski hef ég ekki verið í boltanum nógu lengi til þess að skilja þetta. Við vorum teknir út úr leiknum í raun og veru, auðvitað gerum við fullt af feilum. Við erum út af í sextán mínútur en þeir fá eina tveggja mínútna brottvísun, það talar sínu máli. Ég átta mig engan veginn á þessu, ég á auðvitað eftir að kíkja á leikinn og fara yfir hann, en ég er nánast orðlaus yfir því hvernig þetta gat þróast þarna í lokin.“

Undir lokin voru margir dómar þar sem hallaði á gestina á mikilvægum köflum þar sem þeir voru ýmist að reyna að jafna, komast yfir eða slíta sig frá heimamönnum.

„Mjög margir, við fáum ótrúlegar tvær mínútur líka, við erum einn fjórða af leiknum einum færri, á móti góðu liði eins og ÍBV er það mjög erfitt,“ sagði Halldór en liðið spilaði frábærlega í fyrri hálfleik þar sem þeir skoruðu 17 mörk þrátt fyrir að fá fjórum sinnum tveggja mínútna brottvísun.

„Eins og ég segi, veit ég ekki hvað ég á að segja, ég skil ekki hvernig „standardinn“ getur verið svona slakur í efstu deild, ég átta mig ekki á því hvernig það lendir á öðru liðinu svona illa, þetta er mér algjörlega fyrirmunað að skilja. Þeir geta kannski svarað fyrir þetta dómararnir á meðan þeir labba hérna fram hjá okkur,“ sagði Halldór í þann mund sem Sigurgeir Sigurgeirsson og Ægir Sigurgeirsson löbbuðu í gegnum viðtalið.

Halldór var að flýta sér í Herjólf en gaf sér smá tíma í að láta dómarana heyra það, þar sem hann taldi upp atvik þar sem hallaði á gestina og fengu þeir sem vildu að heyra það sem Halldóri fannst um þessa dóma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert