„Ætli ég hlusti ekki á Rás 1 á leiðinni“

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss.
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss. Ljósmynd/Þórir Tryggvason.

„Þetta var nákvæmlega eins og ég bjóst við. ÍR er með fantagott lið og þetta var alls ekki auðvelt verkefni, enda átti ég ekki von á því,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, eftir 27:26 sigur á ÍR í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta.

„Það var 15:13 í hálfleik og ég var ánægður með það en síðan fer 5:1 vörnin hjá okkur að leka aðeins hægra megin í seinni hálfleiknum. Þá förum við í 6:0 til þess að fá einhvern þéttleika, en við spilum 6:0 sjaldan og þurfum að gera betur þar. En það var mikilvægt að landa sigri í þessum fyrsta leik.“

Selfoss hafði frumkvæðið lengst af en ÍR náði að jafna í lokin og var hársbreidd frá því að tryggja sér framlengingu eftir að Selfyssingar hikstuðu í sókninni.

„Þetta eru tvö góð lið og þú getur alltaf fundið einhver atriði. Sóknin gekk ekki vel hjá okkur á lokakaflanum en það var þannig líka hjá ÍR ingunum. Ég er reyndar ánægður með hvernig þetta spilaðist hjá okkur eftir að við tókum leikhlé sem skiluðu yfirleitt árangri. En ég er hrikalega ánægður með að ná að vinna þennan leik. Bjarni Fritzson var búinn að stilla sína menn vel inn í dag, enda þekkjast þessi lið mjög vel. ÍR-ingarnir eru stórhættulegir og að vera að tala þetta ÍR-lið niður finnst mér bara vera móðgun við þá,“ bætti Patrekur við.

„Nú þurfum við bara að greina leikinn. Það er örugglega eitthvað sem þarf að laga og það eru alltaf einhver atriði sem maður finnur. Við erum fjölbreyttir, við höfum spilað margar varnir í vetur og sóknarlega höfum við mörg vopn. Núna fer ég bara heim og róa mig aðeins niður á meðan ég keyri yfir heiðina. Ætli ég hlusti ekki á Rás 1 á leiðinni, eitthvað klassískt, maður er kominn á þann aldur,“ sagði Patrekur hlæjandi að lokum; „en við mætum af fullum krafti á mánudaginn og auðvitað er markmið okkar að vinna þann leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert