Sirkusdæmi að fara til Vestmannaeyja

Einar Rafn Eiðsson er mikill aðdáandi Vestmannaeyja.
Einar Rafn Eiðsson er mikill aðdáandi Vestmannaeyja. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var spurning hvort þetta yrði ÍBV og Afturelding, sem eru bæði hörkulið. Þetta verður erfitt en skemmtilegt verkefni til að takast á við," sagði Einar Rafn Eiðsson í samtali við mbl.is.

Einar og liðsfélagar hans í FH mæta ÍBV í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handbolta og fer fyrsti leikurinn fram í Kaplakrika kl. 16 í dag. Einar á von á erfiðu einvígi, en ÍBV hefur verið á betri siglingu en FH á síðustu vikum. 

„Þetta verða algjörlega 50/50 leikir. ÍBV er búið að spila vel upp á síðkastið á meðan við höfum ekki alveg sýnt okkar rétta andlit. Við vitum hvað við höfum verið að gera vitlaust og við höfum farið út fyrir okkar ramma. Við erum búnir að skoða það og við lögum það fyrir ÍBV."

FH-liðið hefur verið að glíma við meiðsli síðustu vikur, en Einar segir alla vera klára fyrir úrslitakeppnina. „Þetta lítur þokkalega út núna. Það var gott að fá tvær vikur í pásu og menn sem hafa verið tæpir hafa unnið í sínum málum og ættu að vera í toppstandi fyrir ÍBV."

„Það er ákveðið sirkusdæmi að fara til Vestmannaeyja. Það er verið að espa mann upp allan leikinn. Við þurfum fyrst og fremst að halda haus," sagði Einar.

Kári Kristján Kristjánsson, leikmaður ÍBV, sagði við fjölmiðlamenn stuttu fyrir viðtalið honum líkaði ekki vel við FH. Sálfræðistríðið er því byrjað. „Það er gaman að Kára, hann er alltaf að tala við mann og reyna að fá mann í gang. Ég hef mjög gaman að því að spjalla við hann á línunni," sagði Einar Rafn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert