Náðum að stjórna hraðanum

Guðlaugur Arnarsson annar þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik sem nú …
Guðlaugur Arnarsson annar þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik sem nú er komið í undanúrslitum Íslandsmótsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Arnarsson, annar þjálfari karlaliðs Vals í handknattleik, var léttur á brún eftir að Valur tryggði sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik í dag með öruggum sigri á Aftureldingu, 31:21, að Varmá.  Hann sagði upphafskaflann í síðari hálfleik hafi brotið Aftureldingarmenn niður. Á þeim kafla náði Valsliðið fimm marka forskoti sem Aftureldingu tókst aldrei að ógna verulega.

„Við voru með eins og tveggja marka forskot í fyrri hálfleik þrátt fyrir að nýta ekki færi okkar nógu vel. Þess vegna hefðum við getað rifið okkur frá Aftureldingarliðinu fyrr. Á upphafsmínútum síðari hálfleik fengum við nokkur auðveld mörk og náðum í framhaldi mjög góðum tökum á leiknum, tökum sem við héldum til leiksloka,“ sagði Guðlaugur.

„Aftureldingarliðið gaf verulega eftir síðasta stundarfjórðung leiksins þegar tök okkar á leiknum voru orðin mjög góð. Þá bættist við að Daníel Freyr Andrésson varði nokkur góð skot sem braut Aftureldingarmenn talsvert niður,“ sagði Guðlaugur sem tók undir með blaðamanni að Valsliðið hefði stjórnað hraða leiksins frá upphafi.

„Við sýndum mikið frumkvæði í vörninni sem gerði að verkum að Aftureldingarmenn voru í basli frá upphafi í sókninni. Þar með náðum við stjórn á hraða leiksins sem var mikilvægt. Um leið þá lékum við afar agaðan sóknarleik,“ sagði Guðlaugur Arnarsson sem glotti út í annað þegar hann var spurður hvort lið Vals minnti á Íslandsmeistaraliðið fyrir tveimur árum. „Við skulum vona það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert