Það verður sól í Safamýri á fimmtudag

Þórey Rósa Stefánsdóttir, Fram.
Þórey Rósa Stefánsdóttir, Fram. mbl.is/Hari

„Það er gott að eiga fleiri leiki eftir,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir markahæsti leikmaður Fram með sex mörk þegar liðið tapaði fyrir Val, 28:21, í fyrsta úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna á heimavelli Vals í kvöld.

„Nú verðum við bara að snúa okkur að næsta leik. Það er ekkert annað í boði,“ sagði Þórey Rósa sem taldi Fram-liðið hafa verið sjálfu sér verst í fyrri hálfleik með mörgum slæmum ákvörðunum í sóknarleiknum sem hafi reynst afar dýrt þegar upp var staðið. Munurinn var strax orðinn fimm mörk að loknum fyrri hálfleik. „Valsliðið var klárar í slaginn að þessu sinni en við. Það lék betri vörn og fengu geggjaða markvörslu með. Þessu áttum við erfitt að svara í kvöld.

 Vörnin kom ekki upp hjá okkur fyrr nokkuð var liðið á síðari hálfleik. Þá lifnaði yfir markvörslunni um leið. Við vitum alveg hvað við getum. Þess vegna gerum við okkur vel grein fyrir að við eigum mikið inni. Nú verðum við að skrúfa hausinn rétt á okkur fyrir leikinn á fimmtudaginn, á sumardaginn fyrsta í sól og blíðu. Það verður sól í Safamýri á sumardaginn fyrsta, utan vallar sem innan,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir, hin reynda handknattleikskona Fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert