Höfum unnið á Selfossi áður

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka.
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, var skiljanlega mjög ósáttur eftir 30:32-tap fyrir Selfossi í þriðja leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins í handbolta í kvöld. Haukar voru með fimm marka forskot þegar tíu mínútur voru til leiksloka, en þá skoru Selfyssingar næstu fimm mörk og knúðu fram framlengingu. 

„Sóknarleikurinn var hræðilegur síðustu tíu. Við hættum að sækja á markið og við vorum rosalega kraftlausir. Við náðum varla skoti á markið og ég er rosalega svekktur hvernig við fórum með þetta síðustu tíu.

Á meðan sóknarleikurinn hrynur hjá okkur, ná þeir að refsa í hraðaupphlaupum. Þetta varð jafn leikur og við missum mann út af með tvær mínútur í framlengingunni og þá ná þeir frumkvæðinu og við náðum ekki að koma til baka úr því," sagði Gunnar í samtali við mbl.is. 

Selfoss verður Íslandsmeistari með sigri í fjórða leiknum á Selfossi á miðvikudaginn kemur.  

„Við verðum að vinna næsta leik. Við höfum unnið áður á Selfossi og nú þurfum við að koma til baka og svara þessu," sagði Gunnar Magnússon. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert