Sá fyrsti í augsýn hjá mögnuðum Selfyssingum

Árni Steinn Steinþórsson að skora fyrir Selfyssinga í gær.
Árni Steinn Steinþórsson að skora fyrir Selfyssinga í gær. mbl.is(Kristinn Magnússon

Fyrsti Íslandsmeistaratitill Selfoss í handbolta er í augsýn eftir 32:30-útisigur á Haukum í framlengdum þriðja leik liðanna í úrslitum Íslandsmóts karla í gærkvöldi.

Staðan í einvíginu er nú 2:1, Selfossi í vil. Með sigri á heimavelli á miðvikudaginn kemur verður Selfoss Íslandsmeistari.

Aldrei skyldi afskrifa Selfoss. Það ættu handboltaunnendur hér á landi að vita og ef þeir vissu það ekki fyrir leik gærkvöldsins vita þeir það núna. Haukar voru með fimm marka forskot þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Þá tók Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, leikhlé og náði að stappa stáli í sína menn.

Selfoss skoraði fimm mörk í röð og hefði með smáheppni getað unnið leikinn í venjulegum leiktíma. Meðbyrinn var hins vegar með gestunum í framlengingunni og voru þeir alltaf líklegri gegn Haukum, sem virtust hálfhræddir. Patrekur sýnir það betur með hverjum leiknum hversu fær þjálfari hann er. Svör lærisveina hans eftir öll þrjú leikhléin sem hann tók voru virkilega góð og nær hann greinilega mjög vel til leikmanna.

Stærsta ástæða þess að Haukar komust fimm mörkum yfir þegar skammt var eftir var markvarslan. Grétar Ari Guðjónsson og vítabaninn Andri Sigmarsson Scheving vörðu vel en Sölvi Ólafsson og Pawel Kiepulski voru í basli hinum megin. Undir lokin fór Sölvi hins vegar í mikinn ham og með hann í stuði er Selfoss betra lið en Haukar.

Elvar Örn Jónsson og Haukur Þrastarson eru mennirnir sem Selfoss leitar til í sóknarleiknum. Hvað eftir annað fundu þeir Atla Ævar Ingólfsson, sem var óstöðvandi á línunni og skoraði tíu mörk. Það hlýtur að vera rosalega gaman að vera línumaður í liði eins og Selfossi, þar sem færir leikmenn dæla boltanum á þig. Atli gerði vel í að búa sér til pláss og nýta færin.

Sjá allt um úrslitarimmu Hauka og Selfoss á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert