Aron ekki með í landsleikjunum

Aron Rafn Eðvarðsson er á leið í aðgerð og spilar …
Aron Rafn Eðvarðsson er á leið í aðgerð og spilar ekki meira fyrr en á næstu leiktíð. mbl.is/Árni Sæberg

Markvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson spilar ekki meira með Hamburg á þessari leiktíð í þýsku 2. deildinni í handbolta en hann er á leið í aðgerð vegna hnémeiðsla.

Lið Hamburg hefur að litlu að keppa í þremur síðustu umferðum deildarinnar en liðið siglir lygnan sjó um miðja deild. 

„Ég hef fundið fyrir meiðslum í hnénu síðustu tvo mánuði. Eftir leikinn við Eintracht Hagen á sunnudaginn var ástandið mjög slæmt,“ sagði Aron Rafn við BILD en ákveðið var að hann færi í aðgerð sem fyrst með von um að hann verði klár í slaginn sem fyrst í sumar og geti tekið fullan þátt í undirbúningnum fyrir næstu leiktíð.

Meiðsli Arons þýða að hann verður ekki með í síðustu leikjum íslenska landsliðsins í undankeppni EM en liðið mætir Grikklandi 12. júní og Tyrklandi 16. júní. Aron var ekki með í síðasta landsleik liðsins þegar Ísland gerði 24:24-jafntefli við Makedóníu á útivelli en þá voru Viktor Gísli Hallgrímsson og Ágúst Elí Björgvinsson markverðir liðsins. Aron og Björgvin Páll Gústavsson höfðu verið markverðir í 34:33-tapi á heimavelli gegn Makedóníu nokkrum dögum áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert